Nauðsynlegt er að hvetja og styðja þá sem hafa hug á að setjast að utan þéttbýlis og hefja búskap.
Þetta er mat dreifbýlis- og hálendisnefndar en landbúnaður hefur dregist saman á Fljótsdalshérði líkt og annars staðar á landinu á undanförnum árum. Gripum hefur fækkað um 3% í nautgriparækt og 2,5% í sauðfjárrækt í sveitarfélaginu frá árinu 2002. Þá hefur mjólkurbúum fækkað, þau verið stækkuð og eignarhald breyst. Á landinu öllu hefur framleiðendum í nautgriparækt fækkað um 40% á síðustu 10 árum. Rúnar Ingi Hjartarson frá Búnaðarsambandi Austurlands kynnti þróun landbúnaðar í sveitarfélaginu fyrir dreifbýlis- og hálendisnefnd á síðasta fundi nefndarinnar, en hann telur bættar samgöngur og fjarskipti vega þyngst við eflingu byggðar í dreifbýli. Fljótsdalshérað er víðfeðmasta sveitarfélag landsins og leggur sveitarstjórn áherslu á að þjónusta við íbúa sé áþekk sama hvar þeir búa.