- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Sett hefur verið upp í Safnahúsinu á Egilsstöðum sýning franska fornleifafræðingsins Söndru Coullenot á 25 ljósmyndum sem hún hefur tekið vítt og breitt um Ísland af gömlum byggingum. Ljósmyndirnar á þessari sýningu eru hluti af doktorsverkefni hennar. Í rannsókninni skoðar hún m.a. hvort og hvernig torfhús hafa haft áhrif á íslenska sagnahefð og notar til þess bæði aðferðir þjóðfræði og fornleifafræði.
Sandra er að leita eftir því að gestir sýningarinnar skrifi niður minningar eða hugsanir sem þeir tengja við torfhús. Sérstakur minningakassi er á sýningunni sem hægt er að stinga í miðum með eigin hugrenningum.
Sýningin er á neðri hæð Safnahússins fyrir framan Héraðsskjalasafnið og stendur fram í miðjan febrúar. Hún er öllum opin og aðgangur ókeypis. Sýningin er sett upp í samstarfi við söfnin í Safnahúsinu og Gunnarsstofnun en Sandra dvelur um þessar mundir í gestaíbúðinni á Skriðuklaustri.