- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Sýnum samstöðu með þolendum kynbundins ofbeldis! Dansbyltingin Milljarður rís fer fram í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum þann 14. febrúar klukkan 12:15-13.00.
Hinn árlegi dansviðburður Milljarður rís fer fram í Íþróttamiðstöðinni þann 14. febrúar. Þetta er í sjöunda sinn sem viðburðurinn er haldinn hér á landi og fólk kemur saman og dansar fyrir heimi þar sem allir, óháð kyni og kynhneigð, fá að njóta sömu tækifæra án ótta við ofbeldi. Íslensk landsnefnd UN Women fagnar 30 ára afmæli í ár og því ærin ástæða til að mæta og dansa með okkur!
Við hvetjum fólk til að mæta með FO-húfurnar sínar á svæðið, nýjar sem gamlar.
Það er óhugguleg staðreynd að 1 af hverjum 3 konum um heim allan verður fyrir kynbundnu ofbeldi einhvern tímann á lífsleiðinni, það er um ein milljón kvenna. Við mjökumst þó hægt í rétta átt og það verður ljósara með hverju árinu sem líður að ofbeldi í garð kvenna verður ekki lengur liðið.
Í fyrra var viðburðurinn haldinn í yfir 200 löndum víðs vegar um heiminn, m.a. í Argentínu, Sjíle, Mexíkó, Bandaríkjunum, Kanada, Spáni, Tyrklandi, Ástralíu, Hong Kong og Filipseyjum. Á Íslandi kom fjöldi fólks saman á öllum aldri um allt land og var dansað gegn kynbundnu ofbeldi í Reykjavík, Akureyri, Neskaupsstað, Seyðisfirði, Höfn í Hornafirði, Hvammstanga, Reykjanesbæ og Borgarnesi. Samtakamátturinn var allsráðandi!
Ekki missa af stærstu dansveislu heims - mætum og dönsum gegn ofbeldi enn einu sinni! Milljarður rís viðburðir verða einnig haldnir á eftirfarandi stöðum: Hörpu í Reykjavík, íþróttahúsinu á Sauðárkróki, félagsheimilinu Herðubreið á Seyðisfirði, Fosshótel á Húsavík, Höfn í Hornafirði, íþróttahúsinu á Neskaupsstað og Hofi á Akureyri.
Munið myllumerkið #milljarðurrís og #fokkofbeldi.