- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Töluverð aukning var í heimsóknum í Íþróttamiðstöðina á Egilsstöðum á síðasta ári. Þannig var um fjölgun gesta að ræða í öllum mánuðum ársins nema í júlí, en í þeim mánuði var 9% samdráttur. Eigi að síður voru skráðar um fimmtán þúsund heimsóknir þann mánuðinn en árið áður voru þær um sextán þúsund og fimm hundruð. Líklega er það risjótt og óhagstætt veðurfar í júlí í fyrra sem hafði þessi áhrif á aðsókn í sundlaugina.
Skráðar komur í Íþróttamiðstöðina árið 2009 eru um 88.000 og er það 14% aukning frá því á árinu 2008. Vonandi er þetta vísbending um það að íbúar á Fljótsdalshéraði sé að huga betur að heilsu sinni og sjái tækifæri í því að nýta sér góða aðstöðu í Íþróttamiðstöðinni.
Um nokkurra ára skeið hafa börn og unglingar á leik- og grunnskólaaldri haft frítt í sund á Fljótsdalshéraði og er það liður í því að jafna aðstöðu þeirra til íþróttaiðkunar og hvetja þau til þess að hreyfa sig. Eitt þúsund fleiri börn- og unglingar á grunnskólaaldri heimsóttu sundlaugina á árinu 2009 en árið 2008 og er það vonandi vísbending um það að átakið sé að skila árangri. Hjá elli- og örorkulífeyrisþegum, sem einnig fá frítt í sund á Fljótsdalshéraði, varð einnig aukning um eittþúsund heimsóknir á milli ára.