Make it Happen á Austurlandi


Yfir 100 þátttakendur frá 10 löndum taka þátt í ráðstefnunni Make it Happen sem hefst á Egilsstöðum í dag.
Dagskrá ráðstefnunnar er metnaðarfull og fara fyrirlestrarnir fram á þremur stöðum á Austurlandi eða Egilsstöðum, Seyðisfirði og Stöðvarfirði. Inná milli gefst fólki tími til að upplifa sanna austfirska matarlist ásamt því að skoða þá gerjun sem átt hefur sér stað á undanförnum árum.  
Lykilfyrirlesarar á ráðstefnunni verða Max Lamb (UK) hönnuður, Merilyn Keskula (EE) stofnandi ÖÖ: Was it a dream?, Daniel Bystöm (SE) frá Design Nation, Dóri Gíslason (IS) prófessor hjá KHIO í Oslo, Karin T. Larsen og Lene Römer (DK) frá CRT Bornholm, Erik Bugge (NO) menningarfulltrúi og Katla Steinsson (IS) frá Húsi Handanna eru meðal þeirra sem koma fram á ráðstefnunni og deila hugmyndum sínum og reynslu.
Það er Austurbrú sem stendur fyrir ráðstefnunni sem haldin er í tilefni af 10 ára afmæli Menningarráðs Austurlands og til að fagna 10 ára menningarsamstarfi við Vesterålen í Noregi.  Hún er einnig lokaviðburður Evrópu-verkefnisins Creative Communities sem er unnið með samstarfsaðilum í Svíþjóð, Danmörku og Noregi.
Uppselt er á ráðstefnuna en sýningar sem settar verða upp í tengslum við hana verða opnar almenningi í Sláturhúsinu á Egilsstöðum frá 26.september til 6.október.