- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar, sem haldinn var 14. október síðast liðinn, var í annað sinn tekin fyrir ósk Hitaveitu Egilsstaða og Fella, um leyfi til að byggja tæknirými fyrir fjarskiptabúnað, ásamt mastri fyrir gsm símaloftnet uppi á vatnsmiðlunargeyminum á Selhæð. En óánægja hefur verið með staðsetningu loftnetsins á þessum stað frá því það var sett upp í desember 2008. Leyfi var upphaflega gefið fyrir uppsetningu loftnetsins í október 2008.
Á fundi bæjarstjórnar 19. ágúst síðast liðinn, var hins vegar ákveðið að afturkalla byggingarleyfið fyrir gsm loftnetinu og setja málið í grenndarkynningu, sem ekki var gert þegar leyfi var gefið fyrir uppsetningunni í upphafi.
Á fyrrnefndum fundi skipuags- og mannvirkjanefndar, þann 14. október, var farið yfir athugasemdir sem bárust við grendarkynningunni og samþykkt svör við þeim. Á fundinum var einnig samþykkt eftirfarandi bókun: Þar sem við upphaflega afgreiðslu byggingarleyfis láðist að láta fara fram grenndarkynningu, ekki var gert ráð fyrir gsm mastri við hönnun vatnsmiðlunargeymisins og vegna fjölda áskoranna frá íbúum í nágrenni vatnsgeymis, þá hafnar Skipulags- og mannvirkjanefnd leyfi fyrir umræddu gsm mastri.
Í ljósi þess að ekki verður fram hjá því litið, að gsm símar gegna veigamiklu hlutverki í daglegu lífi fólks, þá felur nefndin skipulags- og byggingarfulltrúa að kalla eftir samstarfi við símafyrirtækin um æskilega staðsetningu gsm loftneta og senda í þéttbýli. Skipulags- og mannvirkjanefnd mun beita sér fyrir því, að niðurstaða úr þeirri vinnu fái skipulagslega meðferð.