Nemendur úr Listaháskóla Íslands eru þessa vikuna við æfingar í Sláturhúsinu og í fjölnotasalnum í Fellabæ. Þau eru 8 talsins og eru nemendurnir á þriðja ári á leikarabraut. Ólöf Ingólfsdóttir, aðjúnkt, sem kennir líkamsþjálfun og dans er í forsvari fyrir hópinn.
Ólöf segir að í heildina sé um að ræða 5 vikna dansleikhús námskeið sem nemendurnir þurfa að þreyta í dans, hreyfingu og líkamsbeytingu. Egilsstaðir hafi verið fyrir valinu að þessu sinni en þau verða hér í eina viku í æfingarbúðum. Hún segir að leiklistardeildin sé að koma til Egilsstaða í fyrsta skipti með nemendur sína og að það sé afar gott fyrir þau að komast í nýtt umhverfi til listsköpunar. Hér fái þau nýja innsýn með fjöllunum, birtunni og með því að kynnast nýju fólki. Þá segir Ólöf að Sláturhúsið sé sérstaklega spennandi umhverfi til æfinga og listsköpunar. Þau hafa verið við æfingar í frystiklefanum og finnst þeim sú staðsetning sérstaklega henta vel fyrir námskeiðið. Frystiklefinn sé hrár og frábært að sjá hversu upprunalegu útliti hans hefur verið haldið við, það gefi umhverfinu sérstakt andrúmsloft og gefi tækifæri á nýjum hugmyndum og allt annarri nálgun en þau eiga að venjast. Afrakstur námskeiðisins verður kynning í Listaháskólanum á litlum samsetningum sem nemendurnir hafa skapað.
Ólöf segir að margt spennandi sé að gerast hér í menningarlífinu. Fyrir utan námskeiðið nýta þau tíma sinn í að hitta fólk af svæðinu sem sinnir listsköpun. Þau komi meðal annars til með að halda lítið námskeið fyrir leiklistardeild Menntaskólans á Egilsstöðum. Þá hafi verkefnið Þjóðleikur vakið sérstaklega athygli þeirra og hitta þau aðila sem koma að því verkefni á meðan dvöl þeirra stendur hér.