- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Leikhópurinn Lotta sýnir Litaland, glænýtt íslenskt leikrit með söngvum á Egilsstöðum þann 10. júlí klukkan 13.00. Þetta er tíunda sumarið sem Leikhópurinn Lotta setur upp útisýningu en síðastliðin sumur hefur hópurinn tekist á við Litlu gulu hænuna, Hróa hött, Gilitrutt, Stígvélaða köttinn, Mjallhvíti og dvergana sjö, Hans klaufa, Rauðhettu, Galdrakarlinn í Oz og Dýrin í Hálsaskógi. Hópurinn frumsýnir Litaland í Elliðaárdalnum í Reykjavík miðvikudaginn 25. maí, en í framhaldinu ferðast hópurinn með sýninguna og heimsækir yfir 50 staði víðsvegar um landið.
Höfundur Litalands er Anna Bergljót Thorarensen. Þetta er sjötta leikritið sem hún skrifar fyrir hópinn en hún hefur verið meðlimur í Leikhópnum Lottu frá stofnun hans árið 2006. Ný tónlist hefur einnig verið samin fyrir verkið. Textarnir eru eftir Sævar Sigurgeirsson, utan eins sem er eftir Baldur Ragnarsson en lögin samdi Baldur ásamt þeim Birni Thorarensen og Rósu Ásgeirsdóttur.
Enginn þekkir söguna um Litaland enda er um glænýtt ævintýri að ræða sem aldrei hefur heyrst áður. Þó er hægt að lofa áhorfendum því að þessi sýning er algjörlega í anda Lottu. Húmor fyrir jafnt fullorðna sem börn er alls ráðandi, sýningin lifandi og skemmtileg og sérstaklega við hæfi fyrir fólk frá fjögurra til hundrað ára. Alls eru sex leikarar í sýningunni sem skipta á milli sín 15 hlutverkum. Þá er flutt lifandi tónlist, söngur og dans og því nóg um að vera. Þessu er síðan öllu haldið saman af leikstjóranum og er hann enginn annar en Stefán Benedikt Vilhelmsson.
Miðaverð á sýninguna er 1.900 krónur og ekki þarf að panta miða fyrirfram heldur er alveg nóg að mæta bara á staðinn. Gott er að klæða sig eftir veðri þar sem sýnt er utandyra. Þá mælir Lotta með því að foreldrar taki myndavélina með þar sem áhorfendur fá að hitta persónurnar úr leikritinu eftir sýningu. Öllum þykir jú gaman að eiga mynd af sér með uppáhalds vini sínum úr Ævintýraskóginum.
Nánari upplýsingar um sýninguna má finna á www.leikhopurinnlotta.is og í síma 770-0403.