- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Leikfélag Fljótsdalshéraðs frumsýnir barnaleikritið Línu Langsokk á morgun þriðjudaginn 5. nóvember, í hátíðarsalnum í Alþýðuskólanum á Eiðum.
Sjónarhóll verður sem sagt á Eiðum í nóvember, þar sem Lína verður með apa sinn, herra Níels og hestinn. Hún er sjóræningjadóttir sem er prakkari en líka hjartahlý stúlka sem elur sig sjálf upp með harðri hendi. Lína á fulla tösku af gullpeningum og er sterkasta stelpa í heimi.
Þessi skemmtilega saga eftir Astrid Lindgren lifir í hugum okkar allra en hún varð til á rúmstokki höfundar 1941 þegar dóttir hennar var lasin og hún stytti henni stundirnar með sögum af rauðhæðum ólátabelgi með freknur og stelpan skýrði hana Pippi, sem varð að Línu á íslensku. Leikfélagið segist stolt af því að setja þetta gamalkunna barnaleikrit á svið sem að þessu sinni er í þýðingu Þórarins Eldjárns.
Leikstjóri sýningarinnar er Jóel Sæmundsson, Freyja Kristjánsdóttir er tónlistarstjóri en Lína sjálf er leikin af Karenu Ósk Björnsdóttur. Frumsýning verður eins og áður sagði þriðjudaginn 5. nóvember en sýningar verða síðan sem hér segir:
2. sýning – Miðvikudaginn 6. nóvember klukkan 18:00
3. sýning – Föstudagur 8. nóvember klukkan 18:00
4. sýning – Laugardagur 9. nóvember klukkan 15:00
5. sýning – Sunnudagur 10. nóvember klukkan 15:00
6. sýning – Sunnudagur 10. nóvember klukkan 18:00
7. sýning – Miðvikudagur 13. nóvember klukkan 18:00
Miðapöntun er á vef félagsins. Almennt miðaverð er 3.000 kr. en 2.500 kr. fyrir börn 4ra til 12 ára, eldri borgara og öryrkja.
3ja ára börn og yngri fá frítt inn.
Nánari upplýsingar á leikfelagfljotsdalsherads@gmail.com