- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Þorrinn var afhentur í 20. sinn á þorrablóti Egilsstaða á bóndadag, föstudaginn 20. janúar 2017, en sú hefð er komin á að hver þorrablótnefnd velur einhvern sem með vinnu sinni hefur gert samfélaginu gagn sem eftir er tekið.
Þorrinn, sem er farandgripur, er handunnið listaverk eftir Hlyn Halldórsson frá Miðhúsum og sá sem hann hlýtur hverju sinni fær nafn sitt ritað á plötu á verkinu og hefur gripinn í sinni vörslu til næsta þorrablóts.
Í ár hlaut Jón Arngrímsson Þorrann fyrir ómetanlegt framlag til tónlistarlífs á Héraði. Við afhendingu viðurkenningarinnar á þorrablótinu flutti Anna Alexandersdóttir eftirfarandi kvæði eftir sjálfa sig:
Kæru þorrablótsgestir
Á Héraðsblóti hefðin er
að heiðra þann sem nefndin sér
að unnið hefur gjöfult starf
og gefið frá sér góðan arf.
Þorrann hlýtur maður sá
sem menninguna bætir,
árshátíðum ætíð þá
okkur hérna kætir.
Bak við tjöld hann tæknimál
tekur strax að annast.
Greiðvikinn með góða sál
gott er við að kannast.
Í hálfa öld hann hefur nú
á dansleikjunum spilað
og oft hún syngur með hans frú
ekkert hjá þeim bilað.
Að stilla tæki og gefa tón
tekur hug hans allan,
flest þið kannist við hann Jón
tónlistarmanninn snjallan.