- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Fram eru komnar íbúatölur á vef Hagstofunnar fyrir árið 2009. Nú virðast áhrif lögheimilisskráningar farandverkamanna við uppbyggingu Kárahnjúkavirkjunar og Álversins á Reyðarfirði að mestu vera horfin. Á Fljótsdalshéraði voru skráðir 3.707 íbúar í lok síðasta árs, en nú eru þar skráðir 3.465 íbúar og hefur fækkað um 242. Þessa fækkun má nær eingöngu rekja til brottfarar starfsmanna af virkjunarsvæðinu við Kárahnjúka. Þaðan hafa 227 flutt sig úr sveitarfélaginu á þessu ári. Fækkun íbúa utan vinnubúða þess svæðis er því 15.
Þegar skoðuð er þróun búsetu síðasta áratuginn eða frá árinu 1999 til ársloka 2009, miðað við upplýsingar af vef Hagstofunnar, hefur íbúum sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs fjölgað á þessum árum um 683. Þá er miðað við íbúafjölda 1999 í þeim sveitarfélögum sem nú mynda Fljótsdalshérað.
Á Austurlandi, þ.e.a.s. svæðinu frá Vopnafirði til Djúpavogs, hefur fjölgunin á sama tíma verið 797 íbúar. Í Fjarðabyggð hefur fjölgað um 484 íbúa og er þá eins miðað við íbúafjölda þeirra sveitarfélaga 1999 sem nú hafa sameinast í Fjarðabyggð. Íbúum hefur hins vegar fækkað í öðrum sveitarfélögum á svæðinu samtals um 370.
Á meðfylgjandi línuriti má sjá íbúaþróun á Fljótsdalshéraði umrædd 10 ár.