Á undanförnum vikum hefur nokkrum sinnum verið tilkynnt um hvíta froðu sem kemur inn í hreinsivirkið við Einbúablá og eða í læk við Eiðaveg. Hér með er því skorað á alla að fara vel yfir sín fráveitumál og koma í veg fyrir að spilliefni berist í vaska, salerni og niðurföll.
Bent er á að spilliefni sem berast í fráveitu geta haft skaðleg áhrif á umhverfi, menn og dýr auk þess sem þau geta valdið skaða á fráveitunni og því aukið kostnað við fráveitu í sveitarfélaginu. Oft á tíðum gerir fólk sér ekki grein fyrir hverskonar efni það er með í höndunum. Dæmi um spilliefni sem koma frá heimilum eru ýmis konar hreinsiefni, málning, lím, þynnir, húsgagnabón, leysiefni (t.d. terpentína), lyf, rafhlöður, kvikasilfur í hitamælum, lakk, stíflueyðir, skordýraeitur, úðabrúsar og viðhaldsefni fyrir bíla, t.d. frostlögur, olíuefni og rafgeymar. Í fyrirtækjum falla til spilliefni eins og olíur, sýrur, basar, framköllunarvökvar, prentlitir, formalín, klórmenguð efni, tjöruleysir og efni frá rannsóknarstofum (s.s. efnaleifar og lyf) og efni sem geta valdið litar- og/eða froðumengun.
Íbúar og starfsmenn fyrirtækja bera sameiginlega ábyrgð á umhverfi sínu og hluti af þeirri ábyrgð felst í réttri meðferð á spilliefnum. Samkvæmt lögum er skylt að afhenda allan spilliefnaúrgang til viðurkenndra móttökuaðila spilliefna. Fljótandi efni skulu sett í vel merkt, sterk plastílát, helst upprunaleg ílát sem varan er keypt í, og þeim skilað til spilliefnamóttöku á Sorpstöð Héraðs að Tjarnarási 11. Ef efnið flokkast ekki sem spilliefni verður því fargað á viðunandi máta annars er það sent til löglegrar förgunar eða í endurvinnslu.
Upplýsingum eða ábendingum um hugsanlega orsök froðu má gjarnan koma á framfæri við Helgu Hreinsdóttur heilbrigðisfulltrúa í s. 893 0051, fasteigna- og þjónustufulltrúa Fljótsdalshéraðs eða umhverfisfulltrúa Fljótsdalshéraðs í síma 4 700 700 eða í netföngin eggert@egilsstadir.is ; eygerdur@egilsstadir.is.