11.01.2008
kl. 00:00
Fréttir
Laugardaginn 12. janúar kl. 11.00 17.00 verður haldið málþing í Íþróttahúsinu á Hallormsstað um sérstöðu og framtíðarþróun í Fljótsdalshéraði og eru allir velkomnir. Þátttakendum verður boðið upp á veitingar í hádegi og standandi kaffi meðan á málþinginu stendur.
Fljótsdalshérað stendur nú á tímamótum vegna vinnu við aðalskipulag sem er stefnumótun um landnotkun til framtíðar. Á undanförnum árum hafa átt sér stað breytingar á landsvísu hvað varðar landnotkun, svo sem með aukinni frístundabyggð, skógrækt og breytingum í matvælaframleiðslu. Með þátttöku í skipulagsvinnunni er hægt að hafa áhrif á framtíðar þróun sveitarfélagsins
Á málþinginu koma fram góðir gestir með mikla reynslu. Að loknum erindum verða umræður í hópum og munu skilaboð úr hópumræðunum verða nýtt við stefnumótun í aðalskipulag Fljótsdalshéraðs. Þar verður m.a. leitast við að finna jafnvægi milli matvælaframleiðslu, skógræktar og frístundabyggðar, þannig að sem flestra hag sé borgið.
Fyrirlesarar eru Salvör Jónsdóttir Alta, Guðmundur Ólafsson bæjarfulltrúi, Sigurður Ingi Jóhannsson oddviti Hrunamannahreppi, Kristín S. Jónsdóttir Umhverfisstofnun, Hallgrímur Indriðason Skógrækt ríkisins, Sigurður Ármann Þráinsson Umhverfisráðuneyti, Áslaug Helgadóttir Landbúnaðarháskóla Íslands, Andri Teitsson atvinnurekandi í landbúnaði, Guðrún Brynleifsdóttir Háskólanum á Hólum og fundinn setur Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs.
Vinna við aðalskipulag fyrir Fljótsdalshérað, hófst vorið 2007. Þetta verður fyrsta aðalskipulag sveitarfélagsins, eftir að það varð til við sameiningu Austur-Héraðs, Fellahrepps og Norður-Héraðs, árið 2004. Aðalskipulagi er ætlað að vera umgjörð um farsælt mannlíf í sveitarfélaginu og í skipulaginu er varpað upp mynd af þeirri framtíð sem stefnt er að. Sýnin byggir á sérstöðu Fljótsdalshéraðs, þeim auðlindum sem hér eru og þarf að standa vörð um eða efla.