Hreyfivikan byrjar vel


Hreyfivikan hófst í dag og svo virðist sem þátttakan sé góð  eins og í fyrra. Nemendur í í Leikskólanum Tjarnarskógi fóru og gerðu æfingar, hlupu og reyndu sig í langstökki eftir upphitun undir stjórn skólastjórans. Í Fellaskóla voru gerðar æfingar á sal og í Hallormsstaðaskóla var dansað. Starfsfólk Nettó tekur þátt í hreyfivikunni og  klæðst m.a. bol með merki verkefnsins við vinnu sína.  

Á morgun gengst Egilsstaðaskóli fyrir hinu árlega Péturshlaupi. Nemendur 1.-4. bekkjar hlaupa á Vilhjálmsvelli kl. 12.30. Nemendur 5.-10. bekkjar hlaupa frá Tjarnargarðinum kl. 14. Nemendur 5.-7. bekkjar hlaupa lítinn hring ca. 2 km og nemendur 8.-10. bekkjar hlaupa stærri hring ca. 2,5km. Hlaupið hefst og endar í Tjarnargarðinum.  Péturshlaupið er þáttur í Hreyfiviku Fljótsdalshéraðs og Heilsueflandi skóla verkefninu.

Hreyfivikan  sem haldin er í samvinnu íþróttafélagsins Hattar og Fljótsdalshéraðs er hluti af evrópska Move Week verkefninu.  Dagskrá hreyfivikunnar á að vera komin á öll heimili á Héraði en einnig má sjá hana hér.

Markmið verkefnisins er að 100 milljónir fleiri Evrópubúar verði orðnir virkir í hreyfingu og íþróttum fyrir árið 2020 en eru í dag.  Í fréttatilkynningu segir m.a.  að hreyfingarleysi á meðal Evrópubúa sé stærri ógn við lýðheilsu heldur en reykingar.  Það sé talið valdur að tveimur milljónum eða 10% dauðsfalla á Evrópu á ári. ISCA-samtökin annast verkefnisstjórn en Ungmennafélag Íslands fylgir verkefninu eftir hérlendis.

Hreyfivika á Fljótsdalshéraði hlaut alþjóðlega viðurkenningu sem eitt besta verkefnið í evrópsku „Move Week“ herferðinni í fyrra. Einkum fyrir samvinnu ólíkra hópa í samfélaginu sem lögðust  á eitt til að stuðla að aukinni hreyfingu.