- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Í næstu viku, 27. maí – 2. júní, verður haldin árleg Hreyfivika UMFÍ. Hreyfivika hefur það markmið að vekja athygli á gildi íþrótta- og hreyfingar sem hluti af heilbrigðum lífsstíl. Hreyfivika, eða Move Week, er haldin um allt land og í ár, líkt og áður, verður gríðarlega fjölbreytt og skemmtileg dagskrá á Fljótsdalshéraði.
Líkt og á síðasta ári er það Ungmennafélagið Þristur sem stendur fyrir fjölmörgum og fjölskylduvænum viðburðum í Hreyfiviku. Má þar t.d. nefna rathlaup í Selskógi, frisbígolfnámskeið, fjölskylduhjóladag fyrir fjölskylduna sem endar við verslunina Vask, morgunskokk í Selskógi og prjónagöngu í samvinnu við Frá Héraði. Á Facebooksíðu Þristar er hægt að sjá hluta þeirra viðburða sem félagið stendur fyrir.
Ein af nýjungum Þristar í ár er Fardagafossganga, eða Fardagafossáskorun Þristarins, sem gengur út á það að þátttakendur ganga upp að Fardagafossi. Þar smella þeir af sér einni mynd, „selfie,“ og birta myndina á Facebook og/eða Instagram undir myllumerkinu #fardagafoss2019. Allar myndir sem birtar verða, og eru sannarlega teknar við Fardagafoss, fara í pott og eiga þátttakendur kost á því að vinna hreyfivæna vinninga. Því fleiri ferðir, því meiri möguleikar á vinningi. Hér er lykilatriði því að ganga sem oftast upp að Fardagafossi, taka margar myndir og muna að hafa þær myndir sem birtar eru public, þannig að þær séu ekki læstar almenningi.
Að auki eru fjölmargir skemmtilegir viðburðir fyrir stóra sem smáa og eru þeir allir ókeypis og opnir almenningi. Sem dæmi um viðburði má nefna ýmsa opna tíma í CrossFit Austur, fjölskyldufrjálsar, opinn fimleikatíma, plankaáskorun, sundnámskeið, gönguferðir og fleira og fleira og fleira.
Síðustu ár hefur Hreyfivika gengið mjög vel á Héraði og er því full ástæða til þess að ætla að vel verði mætt á alla viðburði. Þá er hvatt til þess að hvíla bílinn á meðan á Hreyfiviku stendur og nýta frekar virkan ferðamáta.
Prentaða dagskrá Hreyfiviku má einnig finna í Dagskránni 21. tbl. 2019 og hér á síðu Fljótsdalshéraðs.