Hróður vídeó- og kvikmyndahátíðinnar 700IS Hreindýraland vex óðum. En verk frá sýningunni í vor verða sýnd í þremur löndum á næstunni auk þess sem Kristínu Scheving, forstöðumanni hátíðarinnar, hefur verið boðið að halda fyrirlestra á sömu stöðum.
Þannig mun Kristín halda fyrirlestra í Saint Petersburg í Rússlandi, í september, á vegum Filmcentre Bodina og í Manchester Metropolitan University í Englandi, í október, auk þess sem sjálf sýningin verður sett upp í Alsager galleríinu (sjá www.mmu.ac.uk). Loks fer Kristín til University of Phoenix, í Bandaríkjunum (sjá http://www.phoenix.edu/), í nóvember, þar sem hún heldur fyrirlestur, vinnur með nemendum háskólans auk þess sem verkin verða sett upp í galleríi háskólans.
Þá stendur til að sjónlistadeildin við Manchester Metropolitan háskóla sendi hóp nemenda á 700IS Hreindýraland á næsta ári, sem hluta af þeirra námsdagskrá. Vídeó- og kvikmyndahátíðin Hreindýraland 700IS hefur verið haldin undanfarin tvö ár á Fljótsdalshéraði.