07.03.2008
kl. 10:21
Fréttir
Á fundi bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs 5. mars síðast liðinn mótmælti bæjarstjórnin harðlega þeirri ákvörðun Fasteignamats ríkisins að loka starfsstöð sinni á Egilsstöðum. Í bókuninni er m.a. skorað á stjórn Fasteignamats ríkisins og fjármálaráðherra að falla frá ákvörðuninni og efla þjónustuna frekar á svæðinu.
Bókun bæjarstjórnar er eftirfarandi:
Þjónusta eins og fasteignamat er eðlileg og nauðsynleg nærþjónusta ekki síst á vaxtarsvæðum. Vakin er
athygli á að starfssvæði skrifstofunnar á Egilsstöðum er allt Austurland og er hún mikilvægur
þjónustuaðili við fasteignasölur. Þjónusta Fasteignamats ríkisins er afar mikilvæg fyrir samfélagið og
kallar á að hún sé veitt hratt og örugglega af staðkunnugum aðila. Verkefnum skrifstofunnar á
Austurlandi hefur fjölgað mjög á síðustu árum og því full þörf á að efla þjónustuna í stað þess leggja
hana af. Má þar nefna þjónustu við frágang kaupsamninga og annarra skjala í tengslum við fasteignaviðskipti, svo og við lántökur vegna húsbygginga og skráningu allra upplýsinga vegna jarða,
lóða og nýbygginga.
Ákvörðunin er óskiljanleg og í hrópandi mótsögn við stefnu ríkisstjórnarinnar um að flytja opinber störf
út á land. Verkefni Fasteignamatsins eru dæmigerð verkefni sem hægt er og á að vinna í nálægð við þá
sem þurfa á þjónustunni að halda. Það skýtur því skökku við að Fasteignamat ríkisins sé að leggja niður grunnþjónustu á landsbyggðinni á sama tíma og stofnunin veitir umframþjónusta á höfuðborgarsvæðinu.
Bæjarstjórn skorar á stjórn Fasteignamats ríkisins og fjármálaráðherra að falla frá ákvörðuninni og efla
þjónustuna með því að byggja upp skrifstofuna á Egilsstöðum í stað þess að leggja hana niður. Bæjarstjórn beinir því til þingmanna Norðausturkjördæmis að þeir fylgi málinu fast eftir.