- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Tólf manna hlaupahópur undir merkjum forvarnarverkefnisins Útmeða hélt í gærmorgun, 30.júní, í hringhlaup um landið. Lagt var upp frá aðalskrifstofu Rauða kross Íslands við Efstaleiti í Reykjavík. Hlaupararnir stefna að því að slá hraðamet með því að hlaupa hringveginn að meðtöldum hring í Vestmannaeyjum á fimm sólarhringum. Í ferjunni á leið til Eyja verður hlaupið á hlaupabretti.
Fólk er hvatt til að slást í hóp með hlaupurunum inn í stærstu þéttbýliskjarnana á leiðinni. Miðað við áætlun hlauparanna um að halda 12 km meðalhraða áttu þeira að vera á Egilsstöðum á fimmtudag um klukkan 19. En þeir eru fljótari í ferðum en gert var ráð fyrir og þeir verða við Herði í Fellabæ um klukkan 17.30. Þeir sem vilja hlaupa þaðan mæti aðeins fyrr og þeir sem vilja hlaupa frá Olís mæti ekki seinna en 17.30. Þeir sem vilja ekki hlaupa geta komið og fagnað við N1 og/eða hringt í söfnunarsímann 904 1500.
Hægt er að fylgjast með hvar hlaupararnir eru hér.
Í fréttatilkynningu segir m.a.: Landssamtökin Geðhjálp og Hjálparsími Rauða kross Íslands, sem er 1717, standa ásamt hlaupahópnum að forvarnarverkefninu Útmeða. Með yfirskrift verkefnisins eru ungir karlmenn hvattir til að setja tilfinningar sínar í orð til að hafna ekki í tilfinningalegu öngstræti með ófyrirséðum afleiðingum. Markmið verkefnisins er að stuðla að fækkun sjálfsvíga með áherslu á unga karlmenn. Sjálfsvíg eru algengasta dánarorsök ungra karla á Íslandi.
Almenningur getur heitið á hlauparana með 1.500 kr. fjárframlagi í gegnum símanúmerið 904 1500 eða lagt inn á söfnunarreikning Geðhjálpar 54614411114, kt. 5311800469 valda upphæð á meðan á hlaupinu stendur."
Hægt verður að fylgjast með hlaupinu á facebooksíðu Útmeða og Snapchat-aðganginum utmeda.