Um þessar mundir eru 50 ár liðin frá því að Bókasafn Héraðsbúa hóf starfsemi sína. Í tilefni þessara tímamóta býður safnið öllum notendum sínum, vinum og velunnurum í afmæliskaffi í dag, föstudaginn 30. nóvember, á opnunartíma safnsins frá 14.00-19.00.
Á ýmsu gekk með starfsemi safnsins fyrstu árin, stundum var aðstaða til útlána í kjallaraherbergi einhvers velviljaðs íbúa sveitarfélagsins, stundum var það geymt í kössum á hálofti annars, og þar fram eftir götunum.
Árið 1966 fékk safnið inni í kjallara undir sviðinu í Valaskjálf og segja má að síðan hafi það starfað óslitið þrátt fyrir flutninga og misjafnan aðbúnað. Í ársbyrjun 1993 komst safnið loks heim, það er að segja, í eigið húsnæði í Safnahúsinu. Þar hefur það vaxið og dafnað og er í dag vinsæll viðkomustaður margra íbúa sveitarfélagsins.