- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Nú hefur jarðgerðarvél verið tekin í notkun á gámaplaninu á Egilsstöðum. Í fyrstu tæmingu á brúnu sorptunnunum, þ.e.eftir tvær vikur, komu í vélina um 4,7 tonn af lífrænum úrgangi. Til viðbótar voru 4,7 tonn af timburkurli notuð sem stoðefni. Samtals eru því í jarðgerðarvélinni um 9,4 tonn af lífrænu efni, sem á næstu vikum og mánuðum verða að moltu sem nýtist íbúum næsta sumar.
Í fyrstu losun á grænu tunnunum í þéttbýlinu skiluðu sér 8 tonn af endurvinnanlegum úrgangi, en það er hátt í 30% af því sem tekið er frá íbúum á mánuði. Þegar grænu sorptunnurnar eru losaðar er farið með innihald þeirra í flokkunarstöð Íslenska Gámafélagsins á Reyðarfirði. Þaðan fer endurvinnanlega sorpið mestmegnis til Svíþjóðar og Hollands til endurvinnslu.
Það sorp sem fer í gráu tunnuna er urðað. Eftir fyrstu tæmingu á gráu tunnunum hefur sorp sem fer til urðunar, minnkað mikið. Það bendir til þess að langflestir íbúar sveitarfélagsins flokki sitt sorp, og leggi þannig sitt af mörkum til bættrar umgengni um náttúruna.
Ýmsar sögur hafa verið á kreiki um að allt sorp sem kemur frá heimilum á Fljótsdalshéraði sé urðað. Það er auðvitað alls ekki rétt. Þeir sem að sorphirðunni standa gera sér fulla grein fyrir því að ef ekki er farið eftir því sem gefið er út um örlög sorpsins, eru forsendur flokkunarinnar brostnar, segir fulltrúi Íslenska gámafélagsins. Einnig má benda á að endurvinnanlega sorpið er verðmæti, sem unnt er að gera tvennt við, annars vegar selja það en hins vegar borga fyrir urðun á því. Ekki þarf að fjölyrða um hvor leiðin er valin ef hráefnið er nýtilegt til endurvinnslu. Ef flokkað sorp væri urðað, yrði erfitt að fá fólk til að hefja flokkun aftur og rekstrargrundvellinum væri þar með kippt undan þeim fyrirtækjum sem byggja á flokkun úrgangs. Álíka alvarlegur er skaðinn sem sögusagnir um að sorp, sem á að fara til endurvinnslu/moltugerðar, sé urðað. Slíkar sögur geta haft varanleg slæm áhrif á árangur verkefnisins. Því er nauðsynlegt að kynna sér hvað er hæft í orðrómi um að endurvinnanlegur úrgangur fari ekki rétta leið, áður en slíkum sögusögnum er dreift. Hægt er t.d. að hafa samband við Íslenska Gámafélagið og fá að skoða aðstöðuna, bæði jarðgerðarvélina á Egilsstöðum og flokkunarstöðina á Reyðarfirði. Ef hins vegar fólk verður vitni að því að endurvinnanlegur og/eða lífrænn úrgangur sé urðaður, er rétt að fólk komi ábendingum þar um til starfsmanna sveitarfélagsins og leiti skýringa, þar eða hjá Íslenska Gámafélaginu, áður en þeirri vitneskju er dreift, segir starfsmaðurinn. Það getur nefnilega gerst í stöku tilfellum að endurvinnanlegur/lífrænn úrgangur mengist af öðrum úrgangi sem gerir hann óhæfan til endurvinnslu/moltugerðar. Mengun af þeim toga verður yfirleitt vegna rangrar flokkunar, t.d. þegar lífrænn/óflokkaður úrgangur blandast endurvinnanlegum svo ekki svarar kostnaði að þrífa hann og selja til endurvinnslu. Slík mengun á ekki að eiga sér stað ef allir íbúar taka höndum saman um að flokka sorpið sem frá þeim kemur. Það er því mest undir íbúunum sjálfum komið að verkefnið gangi og allur úrgangur fari rétta leið, þ.e. í moltugerð, endurvinnslu eða urðun, segir starfsmaður Íslenska gámafélagsins að lokum.