12.12.2007
kl. 11:26
Fréttir
Fljótsdalshérað hefur auglýst eftir aðila til að taka að sér tímabundna geymslu bílflaka og annarra afgangshluta sem skildir hafa verið eftir á víðavangi. Með þessu vill sveitarfélagið skapa betri grundvöll fyrir hreinsun opinna svæða og fegrun umhverfis í sveitarfélaginu.
Svæðið sem sveitarfélagið er að óska eftir þarf að vera afgirt malarplan. Ætlunin er að geymsla bílflaka eða annarra afgangshluta standi yfir í 45 daga eftir að eiganda eða ábyrgðarmanni hefur verið veittur frestur til að bregðast við tilmælum Heilbrigðiseftirlits Austurlands um að koma slíkum hlutum til geymslu eða eyðingar, eins og samþykkt þess efnis kveður á um. Í auglýsingu frá sveitarfélaginu er bent á að starfsemi sem þessi geti boðið upp á leigu á svæði til fyrirtækja og annarra aðila sem skortur er á í sveitarfélaginu.
Bent er á að í dag er hægt er að skila bílflökum og málmum endurgjaldslaust til móttökustöðvar Sorpstöðvar Héraðs. Greitt er 15.000 kr. skilagjald fyrir að skila ökutæki til móttökustöðvar til endurnýtingar.
Þeir sem áhuga kunna að hafa um þau mál er varða geymslusvæði er bent á að hafa samband við umhverfisfulltrúa eða skipulags- og byggingarfulltrúa Fljótsdalshéraðs í síma 4 700 700.