Haldinn verður fyrirlestur um tölvufíkn unglinga í fyrirlestarsal Menntaskólans á Egilsstöðum þriðjudaginn 5. febrúar kl. 18.00. Fyrirlesturinn flytur Þorsteinn K. Jóhannsson, sem sjálfur hefur þurft að glíma við alvarlega tölvufíkn í um 25 ár, sem markaði líf hans og aðstandenda.
Tölvunotkun Íslendinga hefur margfaldast á síðustu 15 árum og má segja að minnst ein nettengd tölva sé á hverju heimili. Við þessar aðstæður hafa komið fram ýmis vandamál, meðal annars þau sem koma fram í óhóflegri notkun tölvunnar ásamt verulegum persónuleikabreytingum. Fyrirlestur Þorsteins um tölvunotkun og tölvufíkn hefur það hlutverk að varpa ljósi á þann vanda sem margir standa frammi fyrir eða stefna hratt í. Hefur fyrirlesturinn bæði fræðslu- og forvarnargildi.
Fyrirlesturinn er opinn öllum foreldrum, forráðamönnum og kennurum sem hafa áhyggjur af tölvunotkun barna.
Það er Félagsþjónusta Fljótsdalshéraðs og Félagsmálaráð Seyðisfjarðarkaupstaðar sem standa fyrir komu Þorsteins. Aðgangur er ókeypis.