Á fundi bæjarstjórnar á miðvikudag var samþykkt svohljóðandi yfirlýsing frá bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs: Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs lýsir fullum stuðningi við baráttu Seyðfirðinga fyrir jarðgöngum á milli Seyðisfjarðar og Héraðs.
Með stuðningi við áform Seyðfirðinga er á engan hátt verið að draga út mikilvægi metnaðarfullrar framtíðarsýnar um Miðausturlandsgöng. Líkt og að Norðfjarðargöng geta talist vera fyrsti áfangi Miðausturlandsganga geta göng á milli Héraðs og Seyðisfjarðar talist annar áfangi í því stóra verkefni. Fljótsdalshérað hefur ávallt stutt við gerð Norðfjarðargangna í samræmi við óskir og vilja heimamanna. Það sama gerum við núna í kjölfar beiðnar Seyðfirðinga um stuðning við þeirra hugmyndir um lausn á sínum samgöngumálum til framtíðar. Þá er á engan hátt verið að gengisfella stærri hugmynd um heildstæð Miðausturlandsgöng. Yfirlýsingin var samþykkt með atkvæðum allra bæjarfulltrúa.
Áður hafði borist bréf frá Ólafi Hr. Sigurðssyni bæjarstjóra á Seyðisfirði með samþykkt frá bæjarstjórn Seyðisfjarðar um að leita allra leiða til að gerð verði jarðgöng á milli Seyðisfjarðar og Héraðs.