Á fundi bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs, 2. febrúar, var tekin fyrir umfjöllun bæjarráðs um frumvarpsdrög til breytinga á náttúruverndarlögum, en fyrir fundinum lágu athugasemdir við frumvarpið frá Skógrækt ríkisins og Barra hf. Í bókun bæjarstjórnar kemur fram að hún taki heilshugar undir þær athugasemdir sem gerðar hafa verið við fyrirliggjandi drög að nýjum náttúruverndarlögum, m.a. af hálfu Skógræktar ríkisins og Barra hf."
Þá áréttar bæjarstjórn að skógrækt og vinnsla skógarafurða er mikilvægur og vaxandi atvinnuvegur í sveitarfélaginu. Verði fyrirliggjandi drög samþykkt er verið að setja framtíð þessarar atvinnugreinar í verulega óvissu en í skógræktargeiranum á Austurlandi eru í dag um 140 ársverk og fer hratt fjölgandi." Þá segir í bókuninni að verði framkvæmdavaldinu veitt óskilgreind heimild til að banna flestar tegundir sem notaðar eru til skógræktar í dag, er fjárhagslegum forsendum gróðrarstöðva fyrir trjáplöntur kippt í burtu og tapast þar með þekking og reynsla sem byggst hefur upp á Íslandi í gegnum tíðina." Einnig er vísað í umsögn Bændasamtaka Íslands um frumvarpsdrögin, sem birtist í Bændablaðinu 27. janúar sl.
Loks telur bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs að ekki beri að leggja drög þessi fyrir Alþingi heldur verði á ný hafist handa við endurskoðun náttúrverndarlaga í heild sinni með raunverulegri aðkomu hagsmunaaðila að þeirri vinnu."
Bókun bæjarstjórnar var samþykkt með átta atkvæðum en einn sat hjá.