22.04.2009
kl. 10:22
Fréttir
Kristján L. Möller samgönguráðherra afhenti bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs í gær, 21. apríl, staðfestingu á greiðslu 100 milljóna króna viðbótarframlags Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna sameiningar Austur-Héraðs, Norður-Héraðs og Fellahrepps árið 2004.
Forsögu málsins má rekja til fyrrnefndrar sameiningar þriggja sveitarfélaga árið 2004 en allar götur síðan hafa farið fram viðræður milli sveitarfélagsins og yfirvalda um framlög vegna sameiningarinnar. Niðurstaða þeirra varð sú að Fljótsdalshérað væri hluti af sameiningarátakinu sem stóð yfir á þeim tíma.
Heimild var veitt í fjáraukalögum ársins 2008 fyrir framlaginu. Samgönguráðuneytið, sem tók við sveitarstjórnarmálum í ársbyrjun 2008, lagði áherslu á að greiðsla þess yrði tengd sameiningu Fljótsdalshéraðs og Djúpavogshrepps. Ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála ákvað að þar sem sameiningarviðræður sveitarfélaganna væru hafnar skyldi framlagið greitt og afhenti Kristján L. Möller í dag Eiríki Bj. Björgvinssyni bæjarstjóra bréf því til staðfestingar. (Sjá meðfylgjandi mynd). Hefur Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verið falið að ganga frá greiðslunni svo fljótt sem verða má.
Kristján L. Möller segir að með þessari ákvörðun sé áralangt deilumál til lykta leitt og kvaðst hann fagna því að málið væri í höfn.