Félagsþjónustan á Fljótsdalshéraði hefur eflt þjónustu sína til muna í fjölskyldu og barnavernd, ekki síst vegna samstarfs við 5 önnur sveitarfélög sem var skrifað undir í desember á síðasta ári. Ein af þeim leiðum sem boðið verður upp á er PMT foreldrafærni.
Kristín Þyri Þorsteinsdóttir, félagsráðgjafi og félagsmálastjóri Fljótsdalshéraðs segir að í fjölskylduvernd felist stuðningur við barnafjölskyldur sem miðar við að aðstoða við úrlausn erfiðleika sem upp geta komið þar. Eitt af markmiðum fjölskylduverndar er að auka aðgang íbúa að fræðslu og ráðgjöf á sviði uppeldismála. Boðið er upp á uppeldis- og foreldrafærninámskeið, einstaklingsmiðaða uppeldisráðgjöf og PMT meðferð . Að auki er mikil áhersla lögð á samstarf við skóla, heilsugæslu og lögreglu.
Félagsmálanefnd hefur m.a. það hlutverk að gæta velferðar barna og unglinga á þjónustusvæðinu þar sem fyrst er beitt forvörnum en síðar sé farið í markvissar stuðningsaðgerðir ef þess gerist þörf. Með því að leggja fyrst áherslu á forvarnir er markvisst reynt að draga úr sértækum úrræðum og frekar reynt að styrkja einstaklinginn til sjálfshjálpar. Í dag veitir Félagsþjónustan ýmiskonar þjónustu. Það geta allir hringt inn eða komið sem telja sig þurfa á einhverskonar ráðgjöf eða aðstoð að halda. Kristín segir að það séu tilfelli þar sem foreldri hafi samband og fái svör við allt frá einföldum spurningum varðandi hegðun barnsins síns í allt að enn frekari ráðgjöf og aðstoð.
Eitt af því sem Félagsþjónustan er að innleiða í dag er svokölluð PMT foreldrafærni. PMT stendur fyrir Parent Management Training, sem er aðferð fyrir foreldra og aðra sem koma að uppeldi. Aðferðin á að stuðla að góðri aðlögun barna og getur því verið mikilvæg aðferð ef börn sýna hegðunarerfiðleika en hentar öllum börnum. PMT er þróuð af Dr. Gerald Patterson, Dr. Marion Forgatch og samstarfsfólki á rannsóknarstofnun, Oregon Social Learning Center (OSLC), í Oregon fylki í Bandaríkjunum.
Bandarískar rannsóknir hafa leitt í ljós að PMT meðferð dragi úr hegðunarerfiðleikum barns á heimili í um 70% tilfella og hafi auk þess jákvæð áhrif á samskipti innan fjölskyldunar sem og frammistöðu í skóla. Í dag segir Kristín að séu 2 starfsmenn félagsþjónustunar á svæðinu í námi til þess að geta veitt meðferð samkvæmt PMT og aðrir 2 starfsmenn séu í námi til að geta veitt ráðgjöf.
Við PMT meðferð er foreldrum leiðbeint hjá PMT meðferðaraðila við að tileinka sér nýjar aðferðir í uppeldi. Þar er unnið með ákveðna grunnþætti til að stuðla að jákvæðri hegðun barnsins; fyrirmæli og jákvæð samskipti við barnið, notkun hvatningar við kennslu nýrrar hegðunar, að setja mörk til að draga úr og stöðva óæskilega hegðun, lausn vanda og uppbyggilegar aðferðir í samskiptum innan fjölskyldu, eftirlit með hegðun barns innan og utan heimilis, tengsl við skólakerfi og stjórn neiðkvæðra tilfinninga.
Eitt af því sem hugmyndafræði PMT foreldrafærni hefur gefið af sér er SMT skólafærni. Kynning var á SMT skólafærni á starfsdegi starfsfólks leikskóla og grunnskóla á Fljótsdalshéraði 5. janúar síðastliðinn.
Markmið með SMT skólafærni er að skapa gott andrúmsloft í skólum. Með því að innleiða þetta kerfi væri mögulega hægt að draga úr óæskilegri hegðun nemanda með því að kenna þeim og þjálfa sig í félagsfærni. Þá væri jákvæðri hegðun sérstaklega veitt athygli með markvissum hætti. Viðbrögð starfsfólks væru síðan samræmd gagnvart nemendum sem sýna óæskilega hegðun. Þessi nálgun er byggð á margra ára rannsóknum sérfræðinga í Oregon í Bandaríkjunum og er framkvæmd í samráði við þá.
Eins og er hefur SMT aðeins verið kynnt innan skólanna á Fljótsdalshéraði en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort þessi leið verði innleidd
Þá er rétt að ítreka að þjónusta Félagsþjónustunnar stendur öllum íbúum sveitarfélagsins til boða og þeir því hvattir til að nýta sér þjónustuna. Sjálfsagt er að taka fram að starfsfólk Félagsþjónustunnar er bundið þagnarskyldu um málefni einstaklinga sem þangað leita. Undantekningu frá þagnarskyldu má einungis gera skv. lagaboði eða með samþykki aðila máls