- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Tæplega sextíu starfsmenn sveitarfélaganna fjögurra komu saman til fjarfundar þann 24. mars til að fara yfir stöðu verkefnisins Sveitarfélagið Austurland. Notkun fjarfundabúnaðar í samskiptum er í samræmi við stefnu nýs sveitarfélags um að vera leiðandi í rafrænni þjónustu og stjórnsýslu.
Nauðsynlegt er að gera breytingar á tíma- og verkáætlun verkefnisins í kjölfar frestunar sveitarstjórnarkosninga vegna heimsfaraldurs Covid-19. Frestun kosninganna leiðir til þess að staðfesting sameiningarinnar frestast einnig og þar með að sveitarfélagið taki formlega til starfa. Í því felast bæði áskoranir og tækifæri. Með auknum tíma gefst tækifæri til að vinna nánar í ákveðnum verkefnum og undirbúa fyrir nýja sveitarstjórn. Hins vegar frestast ákvarðanir sem ný sveitarstjórn skal taka, svo sem um val á nafni, afgreiðsla á reglum og endanleg afgreiðsla stjórnskipulags.
Á fundinum var farið yfir helstu atriði úr minnisblöðum starfshópa verkefnisins, en þar koma fram fjölmargar hugmyndir og tillögur fyrir starfsemi nýs sveitarfélags. Minnisblöðin má nálgast hér á vefnum, en þátttakendur í starfshópum eru rúmlega 30.
Katrín Dóra Þorsteinsdóttir, mannauðsráðgjafi hjá Projects, fór yfir stöðu vinnu sinnar, en hennar hlutverk er að greina áhugasvið, færni og styrkleika starfsfólks og vera framkvæmdahópnum til ráðgjafar í mannauðsmálum. Hún hefur rætt við 55 starfsmenn, m.a. til að afla upplýsinga fyrir endanlega útfærslu á stjórnskipulagi og hlutverki og verkefnum starfsmanna nýs sveitarfélags.
Á fundinum komu fram spurningar og ábendingar til Undirbúningsstjórnar verkefnisins. Flestum þeirra var svarað á fundinum, en fjallað verður um aðrar á næsta stöðufundi sem fram fer í fjarfundakerfinu ZOOM þann 6. apríl næstkomandi. Áætlað er að halda reglulega rafræna stöðufundi fram að gildistöku sameiningarinnar