Dagskráin fram á sumar í Sláturhúsinu, menningarsetri á Egilsstöðum, er óðum að skýrast. Eins og oft áður er dagskráin spennandi og fjölbreytileg. Tónleikar verða í Frystiklefa Sláturhússins laugardaginn 19. febrúar þar sem rokksveitin Ensími mun koma fram ásamt gestum, en hljómsveitin er að fylgja eftir nýútkomnum geisladiski sem heitir Gæludýr.
26. febrúar verður myndlistasýning þeirra Elvu Rúnar Sigurðardóttur, Írisar Lindar Sævarsdóttur og Ásu Rúnarsdóttur opnuð. Þær mundu sýna myndlist í bland við vídeóverk sem tengjast við minningar þeirra frá Egilsstöðum, þar sem þær ólust upp.
Kvikmynda- og vídeóhátíðin Hreindýraland 700IS verður sett 19. mars, en hátíðin verður vegleg að vanda. Um dagskrá hennar var nýlega fjallað í þessari frétt á heimasíðu sveitarfélagsins.
Þá hefst Þjóðleikur, leiklistarhátíð ungs fólks, 8. apríl. En verkefnið er samstarfsverkefni Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs og Þjóðleikhússins og var fyrst haldin vorið 2009. Þann 16. apríl verður opnuð myndlistarsýning Ingunnar Þráinsdóttur, Sumarmál. Á sýningunni mun Ingunn sýna verk sem hún vann þegar hún dvaldi í listamannsíbúð í norður Noregi á síðasta ári.
Í maí verður svo loks haldin List án landamæra. Gert er ráð fyrir að það verkefni verði umfangsmeira en nokkru sinni. Fastir liðir verða að vanda svangar skálar" og geðveikt" kaffihús ásamt kvikmyndasýningum, leik/videosýningu ofl.
Skautasvellið í Kornskálanum er alltaf opið þegar aðstæður leyfa til kl. 22 á kvöldin. Vakin er athygli á því að menn eru í skálanum á eigin ábyrgð og foreldrar og forráðarmenn því hvattir til að fylgjast með börnum sínum þar. Engin ábyrgð er heldur tekin á fatnaði eða slysum sem kunna að verða þar.