Er LAust hjá ykkur í sumar?

Sumarið 2020 standa Fjarðabyggð og Fljótsdalshérað í annað sinn að Skapandi sumarstörfum, samvinnuverkefni sveitarfélaganna sem miðar að því að ráða til starfa einstaklinga og hópa sem hafa áhuga á að efla listsköpun sína og um leið glæða sveitarfélögin lífi með listrænum og skapandi uppákomum.

Í ár réðust til starfa 14 öflug ungmenni á aldrinum 16-24 ára og hófu þau störf í byrjun júní. Hópurinn samanstendur af Almari Blæ Sigurjónsson, Bjarteyju Elínu Hauksdóttur, Benjamín Fannari Árnasyni, Bryndísi Tinnu Hugadóttur, Helga Jónssyni, Hildi Vöku Bjarnadóttur Klausen, Ívari Andra Bjarnasyni Klausen, Jóni Axel Matthíassyni, Jónatan Leó Þráinssyni, Júlíusi Óla Jacobsen, Maríu Jóngerð Gunnlaugsdóttur, Maríu Rós Steindórsdóttur, Mekkín Guðmundsdóttur og Viktori Páli Magnússyni.

Hópurinn hlaut nafnið LAust, sem stendur fyrir Listahópur Austurlands.

Sveitarfélögin réðu Emelíu Antonsdóttur Crivello sem verkefnastjóra yfir verkefninu líkt og á síðasta ári, enda leiddi hún starfið af mikilli fagmennsku og sköpunargleði síðasta sumar. Emelía hefur það hlutverk að móta og halda utan um starf ungmennanna og leiða þau áfram í sinni vinnu. Þó er stefnt að því að meðlimir hópsins vinni sem mest sjálfstætt og móti sitt starf þær vikur sem þau eru við störf.

Það verður skemmtilegt að fylgjast áfram með því hvað þessi hæfileikaríki hópur tekur sér fyrir hendur í sumar, til að efla sig í sinni listsköpun og gleðja okkur, íbúa sveitarfélaganna og gesti.

Orðið er LAust – Listahópur Austurlands er bæði á Facebook og Instagram og er óhætt að mæla með því að íbúar á Austurlandi fylgist með því sem hópurinn er að brasa dag frá degi.

https://www.facebook.com/LAust-Listah%C3%B3pur-Austurlands-2431903987092759/
https://www.instagram.com/ordlaust/