Egilsstaðaskóli með í Evrópuverkefni

Egilsstaðaskóli hefur nú hafið þátttöku í Evrópuverkefni. Með í verkefninu eru skólar frá fimm öðrum löndum, Finnlandi, Grikklandi, Noregi, Slóveníu og Þýskalandi. Verkefnið er svokallað Comeniusar verkefni en á ári hverju er þó nokkuð af slíkum samevrópskum verkefnum í gangi bæði í grunn- og framhaldsskólum. Verkefnin eru styrkt af Evrópusambandinu.   
 
Verkefnið heitir á ensku ABC of well being og tengist hugmyndafræði um heilsueflandi skóla. A stendur fyrir action, B fyrir balance og C fyrir caring. Á íslensku myndi verkefnið kallast Hreyfing, jafnvægi og umhyggja. Verkefnið er unnið þannig að fulltrúar frá skólunum hittast í hverju landi fyrir sig og vinna að ákveðnum þáttum. Reynt verður að gera verkefnið sýnilegt í öllum skólunum, kynna það fyrir nemendum og starfsfólki og fá almenna þátttöku í því með ýmsu móti.
 
Vinna í verkefninu hófst í ár og verður unnið í því næstu tvö árin. Nú á dögunum var fyrsta heimsóknin og fóru fjórir fulltrúar úr Egilsstaðaskóla til bæjarins Vaterstetten sem er rétt austan við Munchen í Þýskalandi. Þar var verkefninu ýtt úr vör og vinna hafin með svokallaðan leikjakassa en hvert land lagði til leiki sem hægt er að nota inni í kennslustofu og eins úti í frímínútum.  Vefsíða var sett upp þar sem í fyllingu tímans hvert land getur sótt í banka efni sem til verður á vinnufundunum.
 
Næsta heimsókn verður til Finnlands í byrjun komandi árs og verður þar unnið að matreiðslubók með hollum réttum. Síðar verður unnið með hreyfingu, starfsanda og fleira hollt og gott. Von er á heimsókn fulltrúa hinna þjóðanna til Egilsstaða í október á næsta ári.