Á laugardag fór fram kynningarfundur um tillögu að drögum að nýju aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs í máli og myndum, í Valaskjálf.
Íbúum til glöggvunar á skipulaginu voru hengd kynningarspjöld og teikningar á veggi.
Þar voru fulltrúar Alta, sem gefið hafa ráðgjöf vegna skipulagsins, og fulltrúar bæjarstjórnar til viðræðu við íbúana.
Guðmundur Ólafsson bæjarfulltrúi flutti stutt ávarp fyrir hönd bæjarstjórnar og í framhaldinu kynntu ráðgjafar Alta drög að tillögu aðalskipulags Fljótsdalshéraðs 2008 til 2028. Framfylgd og notkun aðalskipulagsins var því næst kynnt. Í lok fundarins fóru fram fyrirspurnir og umræður. Þar sköpuðust líflegar umræður og leitast var við að svara spurningum og ábendingum fundarmanna.
Hægt er að skoða framlögð kynningargögn á www.alta.is/fdh
Vinna við aðalskipulag fyrir Fljótsdalshérað hófst vorið 2007. Það verður fyrsta aðalskipulag sveitarfélagsins eftir að það varð til við sameiningu Austur-Héraðs, Fellahrepps og Norður-Héraðs árið 2004. Aðalskipulagi er ætlað vera umgjörð um um farsælt mannlíf í sveitarfélaginu og er því ætlað að varpa upp mynd af þeirri framtíð sem stefnt er að. Sýnin byggir á sérstöðu Fljótsdalshéraðs, þeim auðlindum sem hér eru og þarf að standa vörð um eða efla.