Dagur leikskólans verður haldinn hátíðlegur á leikskólum Fljótsdalshéraðs þann 6. Febrúar og verða leikskólarnir opnir af því tilefni. Það voru frumkvöðlar meðal leikskólakennara á Íslandi sem stofnuðu fyrstu samtök sín þennan dag árið 1950.
Öllum er velkomið að heimsækja leikskólana þennan dag en markmiðið með deginum er að vekja athygli á því góða og fjölbreytta starfi sem fer þar fram alla daga. Börnin bjóða upp á ýmislegt í tilefni dagsins. Meðal annars verða þau með kaffiboð fyrir ömmur og afa og morgunverðarboð fyrir foreldra. Þá hafa verið settar upp málverkasýningar á verkum nemenda. Leikskólabörnin fara einnig í heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir þar sem þau syngja fyrir viðstadda.