Menningarnefnd Fljótsdalshéraðs hefur ákveðið að tilnefna bæjarlistamann fyrir sveitarfélagið og fylgir þeirri tilnefningu styrkur að upphæð kr. 800.000.
Nafnbótin getur hvort sem er hlotnast einstaklingum eða hópi en aðeins þeir sem búsettir hafa verið á Fljótsdalshéraði að minnsta kosti um tveggja ára skeið koma til greina.
Menningarnefnd auglýsir hér með eftir umsóknum frá listamönnum eða ábendingum um listamenn og skal skila þeim inn fyrir 31. júlí 2007 til menningarfulltrúa Fljótsdalshéraðs, Lyngási 12, 700 Egilsstaðir eða á netfangið karen@egilsstadir.is
Í umsókn listamanns skal koma fram á hvern hátt hann hugsi sér að láta sveitarfélagið og íbúa þess njóta listar sinnar. Ef um ábendingu um listamann er að ræða skal hún rökstudd.
Bæjarlistamaður Fljótsdalshéraðs verður útnefndur á Héraðshátíðinni Ormsteiti 2007 og gildir útnefningin fram að Ormsteiti 2008.
Reglur um tilnefningu bæjarlistamanns Fljótsdalshéraðs er að finna á heimasíðu sveitarfélagsins www.fljotsdalsherad.is .
Reglur um tilnefningu Bæjarlistamanns Fljótsdalshéraðs
1.gr.
Menningarnefnd Fljótsdalshéraðs veitir listamanni á Fljótsdalshéraði nafnbótina Bæjarlistamaður Fljótsdalshéraðs, ásamt styrk. Aðeins þeir listamenn sem búsettir hafa verið á Fljótsdalshéraði að minnsta kosti um tveggja ára skeið koma til greina. Nafnbótin getur hvort sem er hlotnast einstaklingum eða hópi.
2. gr.
Styrkurinn skal vera ákveðin upphæð á ári samkvæmt fjárhagsáætlun og skal greiddur hjá starfsmannadeild sveitarfélagsins. Upphæð styrks skal koma fram þegar auglýst er eftir bæjarlistamanni.
3. gr.
Menningarnefnd auglýsir eftir umsóknum og/eða óskar eftir rökstuddum ábendingum um bæjarlistamann, en er þó ekki bundin af því.
Ákvörðun um bæjarlistamann er tekin af menningarnefnd og skal hann útnefndur í ágúst á Ormsteiti.
4. gr.
Í umsókn listamanns skal koma fram á hvern hátt hann hugsi sér að láta sveitarfélagið og íbúa þess njóta listar sinnar.
Það getur t.d. verið með sýningar- eða tónleikahaldi, samstarfi við félög bæjarins og skóla, eldri borgara og/eða aðra listamenn í sveitarfélaginu í samráði við menningarfulltrúa. Í lok árs skal bæjarlistamaður gera menningarnefnd stuttlega grein fyrir því hvernig til hefur tekist, með greinargerð.
5.gr.
Menningarnefnd mælist til þess að Bæjarlistamaður Fljótsdalshéraðs láti nafnbótina koma fram sem víðast.
6. gr.
Gera skal skriflegan samning við bæjarlistamann.
7. gr.
Reglur þessar taka gildi við samþykkt þeirra í bæjarstjórn.
Samþykkt af bæjarráði Fljótsdalshéraðs 11. júlí 2007