Austurland er með‘etta

Yfir 120 þátttakendur frá um 10 löndum tóku virkan þátt í ráðstefnunni Make it happen, sem fór fram á Austurlandi í lok september. Fyrirkomulagið var óhefðbundið og fengu ráðstefnugestir að ferðast víða um fjórðunginn og upplifa Austurland í víðu samhengi.


Gott samtal og mikill kraftur einkenndi þessa daga og benda fyrstu niðurstöður til þess að fjöldamörg spennandi verkefni geti sprottið upp segir í fréttatilkynningu frá ráðstefnustjórninni. Hönnuðir, handverksfólk, fólk úr þjónustugeiranum, sveitarstjórnarfólk,  embættismenn og aðrir áhugasamir skiptust á skoðunum og aðilar eru sammála um að á Austurlandi séu gríðarleg tækifæri og orka sem þurfi að beisla.


 „Ég get ekki beðið eftir að flytja aftur heim!”; „ég get ekki beðið eftir að koma aftur í heimsókn”, og „ég er ástfangin af Austurlandi”  eru þær tilvitnanir sem voru hvað háværastar við lok ráðstefnunnar, segir jafnframt í fréttatilkynningunni.

Ráðstefnan var haldin í tilefni af 10 ára afmæli Menningarráðs Austurlands, samstarfi við Vesterålen í norður Noregi og sem hluti af Leonardo Evrópuverkefni Þorpsins, Creative Communities.


 Pete Collard og Alice Masters voru meðal ráðstefnugesta og beisluðu hluta á filmu sem sjá má hér,  http://disegnodaily.com/features/make-it-happen.

Stjórnendur ráðstefnunnar voru þær Lára Vilbergsdóttir, Signý Ormarsdóttir og Ásta Kristín Sigurjónsdóttir.