- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Fyrirhugað er að sett verið upp atvinnusýning í tengslum við Ormsteitið í ágúst á þessu ári, en sýningin hefur fengið vinnuheitið "Okkar samfélag 2012". Sýningin er í undirbúningi að frumkvæði atvinnumálanefndar Fljótsdalshéraðs. Um þessar mundir er verið að kanna áhuga aðila í sveitarfélaginu á þátttöku í sýningunni. En markmiðið með henni er að gefa fyrirtækjum og einstaklingum tækifæri til að kynna fyrir gestum og gangandi þær vörur sem eru framleiddar á vegum þeirra og um leið þann kraft og fjölbreytileika sem einkennir atvinnulíf á Fljótsdalshéraði. Fyrirhugað er að sýningin verði haldin í glæsilegri aðstöðu Grunnskóla Egilsstaða dagana 18. - 19. ágúst.
Miðað er við að sýnendur á sýningunni séu fyrirtæki, stofnanir eða einstaklingar á Fljótsdalshéraði. Ekki síst er hvatt til þátttöku þeirra sem hafa komið að einhvers konar nýsköpun í starfi sínu, frumkvöðlastarfi eða eru með eigin framleiðslu og er þá bæði átt við í formi vöruframleiðslu eða þjónustu. Einnig er hvatt til þátttöku þeirra sem eru með verkefni á hugmyndastigi en langar að koma þeim á framfæri.
Það er Austurför ehf. sem kemur að þessari undirbúningsvinnu og þeir sem vilja kynna sér fyrirhugaða sýningu og eða taka þátt í henni hafi samband við Ingibjörgu og Möggu hjá Austurför, í síma 471 3060 sem fyrst eða fyrir 1. apríl. Það skiptir máli að fá fram áhuga atvinnulífsins og annarra því viðbrögðin verða nýtt til frekara skipulags vegna sýningarinnar.