- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Susan Wood er myndlistarkona og prófessor við NSCAD University í Halifax í Kanada. Hún er einstakur teiknari og málari með gríðarlega reynslu í myndlist og kennslu. Hún er mjög þekkt víða um heim og hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir myndlist sína og hefur haldið sýningar víða um heim. Susan er fædd 1953. Verk hennar hafa fínlegan blæ og hefur hún ótrúlegt auga fyrir smáatriðum án þess að vera væmin eða tilgerðarleg. Hún vinnur jurta- og dýrateikningar sínar á vísindalegan hátt þannig að útkoman er oft á tíðum vísindaleg stúdía á plöntum og lífi og dauða: visnuð blóm, dauðir fuglar með kræklótta fætur og þess háttar. Susan elskar að teikna og er það hennar helsta listform.
Kristín Rut Eyjólfsdóttir er með einstaka náttúruhæfileika og getur náð mjög langt á listabrautinni. Býr á Egilsstöðum og fædd árið 1980. Málverk hennar eru stór, gróf, efnismikil og með einstaklega áhugaverða áferð. Hún málar bæði abstrakt og ákveðin myndverk og hefur hún dularfullan skilning á formum, andstæðum og litameðferð, Kristín er einstaklega flink í að nota hvítan lit í verkum sínum. Kristín fer sínar eigin leiðir í myndsköpun og á mjög spennandi framtíð fyrir höndum í listum. Kristín er með vinnustofu á heimili sínu á Egilsstöðum.
Halla Ormarsdóttir býr á Egilsstöðum. Lauk klæðskeranámi frá Iðnskólanum í Reykjavík og hefur unnið sem hönnuður og kennari í 12 ár á Austurlandi, m.a. í Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað og Menntaskólanum á Egilsstöðum. Halla hefur unnið við margskonar hönnun á ólíkum vinnustöðum og hefur reynslu af mjög ólíkum hráefnum s.s. hreindýraleðri, roði, gúmmí, vír, ull og fl. í þeim dúr. Halla er löngu þekkt fyrir frumlegar flíkur sem hún saumar úr notuðum fötum, hún er með vinnustofu í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Halla fékk nýverið úthlutað úr Atvinnuþróunarsjóði Austurlands þar sem hún stefnir á að þróa sína eigin hönnun áfram. Samstarf hennar og Sjafnar á þessari sýningu býður upp á gífurlega möguleika.
Sjöfn Eggertsdóttir býr í Fellabæ. Menntaður listmálari og hefur sýnt víða um Ísland. Sjöfn er snjall teiknari og hefur vakið athygli fyrir skemmtilegar myndir af búfénaði ásamt því að mála einstaklega hrifmiklar og mjúkar myndir af íslensku landslagi, þá sérstaklega ávölum hæðum og mjúkum fjallatoppum með mosagrónum hlíðum. Sjöfn er með vinnustofu í Fellabæ. Verk Sjafnar eru svo sannarlega með mildum blæ og eru það þá þessar mjúku línur og ávölu litskiptingar sem gefa áhorfandanum þá tilfinningu.
Halla og Sjöfn sýna hér sameiginleg verk þar sem Halla skapar kjóla sem eru allt eins skúlptúrar eða sjónrænar tilraunir með ólík efnistök og form, auk þess sem málverk Sjafnar skapa enn ein pörin í tengslum náttúruaflanna.