100 sinnum Stórval

Héraðshátíðin Ormsteiti heldur áfram út þessa viku og stendur til sunnudagsins 24. ágúst. Á föstudagskvöldið fór fram hin árlega hverfahátíð, þar sem íbúar einstakra hverfa komu saman og grilluðu og gerðu sér glaðan dag.

Þaðan var haldið á Vilhjálmsvöll þar sem hátíðarhöld fóru fram. Í lok kvöldsins gengu íbúar frá Vilhjálmsvelli í karnivalstemmingu niður í Egilsstaðavík þar sem Lagarfljótsorminum voru færðar fórnir. Sjaldan eða aldrei hefur eins mikill íbúafjöldi tekið þátt í einstökum hátíðarhöldum á Fljótsdalshéraði.

Hin árlega Möðrudalsgleði er einn af vinsælli viðburðum Ormsteitis, hún er nafninu samkvæmt haldin í Möðrudal á Fjöllum. Að þessu sinni var áhersla lögð á 100 ára afmæli Stefáns Stórval frá Möðrudal. Settar voru upp í því tilefni eitt hundrað málaratrönur fyrir gesti Möðrudalsgleði. Trönurnar sneru í átt að Herðubreið, og var verkefni gesta að mála Herðubreið í anda Stórvals, en Stórval var óþreytandi við að mála Herðubreið. Möðrudalsgleði lauk svo um kvöldið að loknum veisluhöldum með tónleikum þeirra hjóna Eyþórs Gunnarssonar og Ellenar Kristjánsdóttur.

Á mánudag var markaðsdagur barna í tjaldinu við Kaupfélagið. Barnaleikritið Soffía Mús var sýnt á mánudag og þriðjudag. Gæludýrakeppni var haldin í Ormsteitistjaldinu í gær. Nóg verður um að vera á Ormsteiti næstu daga. Rétt er að kynna sér dagskrána á www.ormsteiti.is

 

Meðfylgjandi mynd er frá Möðrudalsgleði þegar gestir máluðu Herðubreið í anda Stefáns Stórval.