Upplýsingar vegna Covid-19

Fljótsdalshérað hefur ákveðið að takmarka þjónustu við viðkvæma hópa og grípa til aukinna aðgerða í kjölfar þess að Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við Sóttvarnalækni vegna kórónaveiru (COVID-19). Ákvörðun um þessa ráðstöfun er tekin með tilliti til hagsmuna fólks sem er í viðkvæmri stöðu eða með undirliggjandi sjúkdóma.

Félagsstarfi eldri borgara í Hlymsdölum á Egilsstöðum verður lokað frá og með 10. mars 2020. Dagvist eldri borgara sem einnig er rekin í Hlymsdölum verður áfram starfandi en óviðkomandi bannaður aðgangur og hreinlætisaðgerðir hertar.

Áfram verður starfsemi í Stólpa – hæfingu og iðju fyrir fatlaða en óviðkomandi bannaður aðgangur og sóttvarnir og hreinlæti hert.

Að sama skapi er viðbúnaðarstig aukið í íbúðakjörnum fatlaðra. Almenningur er beðinn um að koma ekki í heimsókn ef þeir hafa einkenni flensu eða veikinda og virða almennar reglur um hreinlæti og umgengni en leiðbeiningar þar að lútandi eru framsettar á hverjum stað.

Bent er á að Sóttvarnalæknir beinir því sérstaklega til þeirra sem teljast til viðkvæmra hópa, einkum þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og eldri einstaklinga að huga vel að hreinlætisaðgerðum og forðast mannamót að óþörfu.

Öll önnur þjónusta á við einstaklinga á heimilum þeirra á vegum félagsþjónustu helst óbreytt s.s. heimaþjónusta, heimsending matar og akstursþjónusta. Önnur starfsemi félagsþjónustu er óbreytt.

Ofangreindar aðgerðir eru til óráðins tíma. Mögulega kemur til frekari lokana af hálfu sveitarfélagsins, verði útbreiðsla COVID-19 veirunnar á svæðinu meiri.

Egilsstöðum, 9. mars 2020,
Júlía Sæmundsdóttir
félagsmálastjóri Fljótsdalshéraðs