- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Björn Ingimarsson hefur gegnt starfi bæjarstjóra á Fljótsdalshéraði frá því í júlí 2010.
Björn er með meistaragráðu í Þjóðhagfræði frá Gautaborgarháskóla. Hann hefur margra ára reynslu sem stjórnandi og ráðgjafi í atvinnurekstri bæði hér á landi og erlendis en undanfarin ár hefur hann einkum starfað á vettvangi sveitarstjórnarmála. Björn starfaði sem sveitarstjóri Þórshafnarhrepps árin 2001 – 2006, sem sveitarstjóri Langanesbyggðar árin 2006 – 2009 og sem bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs frá því í júlí 2010.
Björn er giftur Sigrúnu Jónu Óskarsdóttur, förðunarfræðingi, og eiga þau sex börn.
Bæjarstjóri situr í eftirtöldum nefndum / stjórnum fyrir hönd sveitarfélagsins:
- Skólaskrifstofa Austurlands
- Barri ehf
- Eignarhaldsfélagið Brunabótarfélag Íslands
- Ársalir bs
- Vísindagarðurinn ehf
- Brunavarnir á Austurlandi
- Fasteignafélagið Iðavöllum
- Almannavarnarnefnd Múlaþings
Bæjarstjóri situr aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi sem fulltrúi Fljótsdalshéraðs og aðalfundi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem áheyrnarfulltrúi með tillögurétt.
Ágætu íbúar.
Nú þegar að nýtt ár er hafið fer vel á því að líta yfir farinn veg og aðgæta hvort þar sé að finna einhverjar vörður til framtíðar og ef svo er þá hverjar. Eins eru þetta hentug tímamót til að horfa til þess sem framundan er.
Lagt var inn í árið 2016 með það að markmiði að starfa samkvæmt þeim ramma er bæjarstjórn hafði markað með samþykkt fjárhagsáætlunar í desember 2015. Eins og vitað er þá er Fljótsdalshérað skuldsett sveitarfélag og því mikilvægt að stigið sé varlega til jarðar þegar að ákvarðanir eru teknar varðandi rekstur þess og framkvæmdir. Um þetta erum við, sem að rekstri sveitarfélagsins komum, vel meðvituð og höfum því starfað mjög ákveðið í samræmi við langtímaáætlun sem lagt var upp með á fyrri hluta síðasta kjörtímabils (2010 – 2014) og sem um hefur ríkt þverpólitísk sátt.
Þó að ekki liggi fyrir á þessari stundu endanlegar uppgjörstölur vegna síðasta árs benda bráðabirgðatölur til þess að náðst hafi að haga rekstri sveitarfélagsins þannig að niðurstöður rekstrar verði vel innan þeirra marka er áætlanir gerðu ráð fyrir. Vil ég hér með þakka bæði starfsfólki sveitarfélagsins og kjörnum fulltrúum þá staðfestu sem þau hafa sýnt í sínum störfum og sem hafa gert þennan árangur mögulegan. Íbúa hvet ég til að koma til fundar með okkur þegar að ársreikningur sveitarfélagsins vegna síðasta árs verður kynntur nú á vordögum en þar verður einnig farið yfir helstu áhersluatriði liðins árs sem og til framtíðar.
Vert er að hafa í huga að þó svo að um nokkuð háa skuldsetningu sé að ræða hefur tekist að haga rekstri sveitarfélagsins þannig að það á hvorki í erfiðleikum með að standa við skuldbindingar né að sinna þeirri þjónustu er lög gera ráð fyrir. Því þó aðhalds sé gætt er það þó ekki svo að ekkert sé gert og nægir þar að nefna framkvæmdir við nýtt 40 rýma hjúkrunarheimili á Egilsstöðum sem tekið var í notkun á árinu 2015. Sú framkvæmd kostaði sveitarfélagið um 1,5 milljarð króna en þrátt fyrir það tókst að halda öllum fjárhagslegum viðmiðum innan þeirra marka sem langtímaáætlun gerði ráð fyrir. Ekki þarf að tíunda hér hvílík bylting tilkoma heimilisins er bæði fyrir vistmenn og starfsfólk þess.
Á síðasta ári var unnið að margvíslegum framkvæmdum á vegum sveitarfélagsins s.s. endurnýjun slitlags á hluta gatna á Egilsstöðum, áframhaldandi uppbyggingu á aðstöðu við tjaldsvæðið á Egilsstöðum, framkvæmdir við nýjan urðunarstað í landi Tjarnarlands, framkvæmdir við áningarstaði tengdum ferðaþjónustu (Fardagafoss og Vatnsskarð m.a.), framkvæmdir á vegum Hitaveitunnar, verulegar endurbætur á húsnæði Fellaskóla og þjónustumiðstöðvar, lagning ljósleiðara í samstarfi við Orkufjarskipti á leiðinni Lagarfoss – Brúarás og aðkoma með fjárframlagi að sveitanetinu sem miðar að því að nettengja allt dreifbýli sveitarfélagsins.
Ef horft er til afþreyingar þá var menningarlífið hér fjölskrúðugt eins og undanfarin ár. Útsvarsliðið okkar landaði Ómars-bjöllunni með glæsibrag á vordögum og gaf okkur þar með gleðitóninn. Skógarhátíðin, Ormsteitið, íþróttahátíðir og margvíslegar samkomur aðrar gerðu það að verkum að meira en einbeittan vilja þurfti til að láta sér leiðast hér á liðnu ári.
Einnig var og er unnið að margvíslegum verkefnum sem eru til þess fallin að skapa sóknarfæri inn í framtíðina.
- Endurskoðun deiliskipulags miðbæjarins: Gildandi skipulag er að vissu leyti hamlandi fyrir framtíðaruppbyggingu þar sem það felur í sér framkvæmdir sem erfitt er að sjá að ráðist verði í á næstu árum. Með endurskoðuðu skipulagi er stefnt að því að laga framtíðarfyrirkomulag miðbæjarins að því sem bæði framkvæmdaaðilar og sveitarfélag eiga auðvelt með að gera að veruleika.
- Endurskoðun aðalskipulags flugvallarsvæðis: Unnið er að gerð skipulags á flugvallarsvæðinu sem gerir framtíðaruppbyggingu mögulega bæði með tilliti til þyrluþjónustu (Drekasvæðið) og þróun þjónustu við farþegaflug á alþjóðavettvangi. Mörgum kann að þykja þær hugmyndir sem unnið er út frá heldur hástemmdar en raunin hjá nágrönnum okkar á norðurlöndunum hefur sýnt hversu mikilvægt það er að vinna slíkt skipulag í tíma. Því eins og bent hefur verið á: Þú skipuleggur ekki eftir á! Samhliða þessu vinna sveitarfélögin Fljótsdalshérað og Fjarðabyggð að því í sameiningu að koma þessu svæði á framfæri við þá aðila er vinna að rannsóknum á Drekasvæðinu, annars vegar, með áherslu á hafnsækna starfsemi (Reyðarfjörður) og, hins vegar, flugþjónustu (Egilsstaðir).
- Menningarhús á Egilsstöðum: Árið 1999 ákvað þáverandi ríkistjórn Íslands að veita stofnstyrki til byggingar menningarhúsa utan höfuðborgarsvæðisins með það að markmiði að bæta þar aðstöðu til menningar- og listastarfsemi. Einu þessara húsa var ákvarðaður staður á Egilsstöðum og farið í það að vinna úttekt á því hvernig því yrði best fyrirkomið af starfshópi sem samanstóð af fulltrúum Fljótsdalshéraðs og Menntamálaráðuneytisins. Hópurinn skilaði af sér tillögum árið 2008 en í framhaldi af fjármálahruninu varð mönnum ljóst að þær ágætu hugmyndir er lagðar höfðu verið fram voru ekki líklegar til að verða að veruleika. Það var því hafist handa við þetta verk að nýju árið 2011 og skilaði þarfagreiningarnefnd sveitarfélagsins og ráðuneytisins af sér nýjum tillögum í ársbyrjun 2016 sem leiddu til þess að gefin var út sameiginleg viljayfirlýsing Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Fljótsdalshéraðs í október sl. þar sem gert er ráð fyrir byggingu menningarhúss sem samanstendur af uppbyggingu Sláturhússins og að reist verði ný burst við Safnahúsið. Gert er ráð fyrir því að framlag ríkisins verði hluti af frumvarpi til fjárlaga ársins 2018. Unnið er að því nú af hálfu sveitarfélagsins að koma þessu máli í formlegan farveg þannig að hefjast megi handa við hluta framkvæmdarinnar þegar á þessu ári.
- Viðbygging við íþróttamiðstöðina á Egilsstöðum: Sumarið 2015 var undirrituð viljayfirlýsing af sveitarfélaginu og Íþróttafélaginu Hetti um að unnið yrði að gerð samnings um uppbyggingu íþróttamiðstöðvarinnar á Egilsstöðum. Markmið þessa er að komast í framkvæmd við viðbyggingu við íþróttamiðstöðina sem fyrir löngu er orðin tímabær sé horft til þess álags og þeirrar eftirspurnar sem er til staðar vegna núverandi aðstöðu. Einnig er litið til þess að bæta bæði búnings- og starfsmannaaðstöðu verulega frá því sem nú er. Endanlegur samningur er ekki kominn á en telja verður að sterkar líkur séu á að svo verði og er þá gert ráð fyrir því að framkvæmdum verði lokið að fullu árið 2020. Gert er ráð fyrir framlögum vegna þessa í fjárhagsáætlunum sveitarfélagsins fyrir árin 2017 – 2020.
Þau verkefni sem hér hafa verið tíunduð eiga það öll sameiginlegt að þau eru til þess fallin að styrkja samfélagið okkar hér á Fljótsdalshéraði til lengri framtíðar bæði hvað uppbyggingu atvinnulífs varðar sem og þjónustu við íbúa sveitarfélagsins. Það er því mikilvægt að við höldum því verki, sem upp hefur verið lagt með, ótrauð áfram.
Ég ætla þá ekki að hafa þetta lengra að sinni en horfi bjartsýnn til framtíðar sem ég þykist og vita að við gerum öll.
Skráð í upphafi Þorra 2017
Björn Ingimarsson
Bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs