Vel heppnaður gönguskíðadagur

Vel heppnaður gönguskíðadagur ungmennafélagsins Þristar og Snæhéra
Vel heppnaður gönguskíðadagur ungmennafélagsins Þristar og Snæhéra

Sunnudaginn 10. febrúar síðastliðinn fór fram vel heppnað gönguskíðanámskeið á vegum ungmennafélagsins Þristar og gönguskíðahópsins Snæhéra. Þristur hafði frumkvæði að því að halda örnámskeið á gönguskíðum í samstarfi við Snæhérana. Námskeiðið var tilvalið fyrir bæði algjöra byrjendur og eins þá sem vildu hressa upp á tæknina. Meðlimir Þristarins sáu um skipulagningu viðburðarins en Snæhérarnir sáu um leiðsögnina af mikilli snilld og stundum þolinmæði.

Aðstandendur Þristarins voru ákaflega ánægð með góðan dag í skóginum, enda um 40 gönguskíðahetjur sem mættu og nýttu þá frábæru aðstöðu sem Selskógur býður upp á. Í lokin var boðið upp á hressingu við varðeld, sem var fullkominn endir á frábæru námskeiði.

Gönguskíðahópurinn Snæhérar hafa forgöngu að því að troða gönguskíðabrautir á Fljótsdalshéraði yfir veturinn. Brautir hafa verið troðnar á þremur stöðum: á Egilsstaðatúni, í Selskógi og á Fjarðarheiði, allt eftir snjóalögum og aðstæðum, og eru brautirnar eru opnar öllu gönguskíðaáhugafólki.

Um árabil hafa Snæhérar haft þann háttinn á að þegar braut er troðin er hópnum send sms-skilaboð og þannig látið vita að hægt sé að skella sér á skíðin. Hafi einhver áhuga á að vera á sms-listanum er hægt að hafa samband við Karl Lauritzson í síma 861-1994.