Þristur blæs til leiks

Ungmennafélagið Þristur lætur ekki sitt eftir liggja, nú þegar samkomubann og alls kyns takmarkanir og bönn setja líf okkar úr skorðum, og ætlar að gera sitt til að hjálpa okkur að halda áfram að lifa og leika okkur.

Stjórnarmeðlimir Þristarins vita sem er að nú er jafnvel enn mikilvægara en á öðrum tímum að huga að andlegri og líkamlegri heilsu. Til að auðvelda Héraðsbúum og öllum öðrum að stunda holla hreyfingu, útivist og huga að andlegri heilsu ætla Þristar að fá til liðs við sig ýmsa aðila úr samfélaginu til að koma með leiðir til að stytta okkur stundir.

Bent verður á tillögur að hreyfingu og staði í nágrenninu sem hægt er að nýta til útivistar, stungið verður upp á skemmtilegum verkefnum sem fjölskyldan getur leyst saman, settar inn andlegar og líkamlegar æfingar, bent á upplífgandi hlaðvörp og svo framvegis og svo framvegis.

Þá er búið að skella í leik með veglegum vinningum. Leikurinn snýst um það að taka mynd af sér og sínum að framkvæma einhverja af hugmyndum Þristar, deila á samfélagsmiðlum og merkja myndina með myllumerkjunum #umf3 og #þristurblæstilleiks.

Það er óhætt að hvetja alla til að fylgjast með herlegheitunum á Facebook síðu Ungmennafélagsins Þristar.