Skellum okkur á skíði!

Breytingar hafa orðið á gjaldskrá Skíðasvæðisins í Stafdal. Er nú frítt fyrir öll börn á Skíðasvæðið í Stafdal, 17 ára og yngri, sem búsett eru á Seyðisfirði og Fljótsdalshéraði. Árgjald fullorðinna hefur lækkað verulega og er einstaklingskort á 15.000 krónur og parakort á 25.000 krónur.

Skíðasvæðið er opið alla virka daga nema mánudaga frá klukkan 17 til 20. Á laugardögum er opið frá klukkan 11 til 16 og sunnudögum frá klukkan 10 til 16.

Á svæðinu er skíðaleiga þar sem hægt er að leigja bæði svigskíði og snjóbretti. Með tímanum verður svo vonandi líka hægt að leigja gönguskíði en yfirleitt er troðið gott gönguskíðaspor á svæðinu.

Skíðafélagið stendur fyrir fjölbreyttri dagskrá í vetur sem og endranær.

Á þriðjudögum, fimmtudögum og sunnudögum eru skíðaæfingar fyrir öll börn á grunnskólaaldri. Unnur Óskarsdóttir sér um yngri hópinn og Zdenek Siroky er með þann eldri. Það eru allir velkomnir á æfingarnar. Á sunnudögum er Krílaskóli sem er ætlaður börnum 2016 og eldri sem eru að byrja sína skíðamennsku. Ævintýraskólinn tekur svo við af Krílaskólanum og er hann líka á sunnudögum. Hann er líka ætlaður börnum á öllum aldri, en sem náð hafa færni að skíða niður stóru brekkuna sem og að taka diskalyftuna.

Skráningar fara fram í gegnum netfangið namskeid@stafdalur.is

Í vetur verður einnig boðið upp á byrjendakennslu fyrir fullorðna. Í lok febrúar verður gönguskíðanámskeið í Selskóginum á Egilsstöðum. En því  miður er nú þegar orðið uppselt á það. Gönguskíðamót, Fjallagangan, verður svo í byrjun maí í Stafdalnum.

Drífum okkur öll í Stafdalinn!