Skák í sundlauginni á Skákdegi Íslands

Hinn 26. janúar verður Skákdagur Íslands haldinn um land allt. Skákdagurinn er haldinn á fæðingardegi Friðriks Ólafssonar, fyrsta stórmeistara Íslendinga, sem nú verður 83 ára. Friðrik, sem lengi var meðal bestu skákmanna heims, er enn á fullu og meðal keppenda á skákhátíð sem hófst í Kópavogi í vikunni.

Að Skákdeginum standa Skáksamband Íslands, Skákakademían, Skákskólinn og taflfélögin í landinu, í samvinnu við félög, einstaklinga o.fl. Kjörorð dagsins eru einkunnarorð skákhreyfingarinnar: Gens Una Sumus - Við erum ein fjölskylda. Með þeim er undirstrikað að allir geta teflt, óháð kyni, aldri eða líkamsburðum.

Í tilefni dagsins ætlar starfsfólk sundlaugarinnar á Egilsstöðum að dusta rykið af taflborðinu ( sem getu flotið ) og taflmönnunum. Hvernig væri að drífa sig í sund og heita pottinn og rifja upp mannganginn? Taflið verður í heita pottinum föstudag, laugardag og sunnudag, 26. til 28. janúar.

Góða skemmtun