Síðustu dagar Hreyfiviku 2018

Góð aðstaða fyrir frisbígolfara er í Lómatjarnargarði
Góð aðstaða fyrir frisbígolfara er í Lómatjarnargarði

Nú líður senn að lokum frábærrar hreyfiviku, en Ungmennafélagið Þristur hefur staðið fyrir skemmtilegum og fjölskylduvænum viðburðum í vikunni og á hrós skilið fyrir frumkvæði og dug.

Að sjálfsögðu hafa fleiri komið að vikunni, þ.á.m. CrossFit Austur, Ferðafélag Fljótsdalshéraðs, Íþróttamiðstöðin og Egilsstaðastofa. Allir sem koma að Hreyfiviku og aðstoða sveitarfélagið við að bjóða íbúum upp á glæsilega dagskrá eiga bestu þakkir skilið.

Þó svo að helgin nálgist og styttist í endalok Hreyfiviku þá verður sannarlega nóg að gera um helgina.
Á laugardaginn verður mikið stuð í Selskógi þegar Þristur býður upp á kynningu á rathlaupi klukkan 13:00. Er kynningin fyrir fólk á öllum aldri og rathlaup er íþrótt sem flestir geta stundað á eigin forsendum. Væri gaman að sjá fólk fjölmenna í Selskóg og auka notin á því frábæra útivistarsvæði sem Selskógur er.

Klukkan 16:00 sama dag stendur Þristur svo fyrir frisbígolfstuði fyrir alla fjölskylduna í Tjarnargarðinum. Ungmennafélagið Þristur hefur verið frumkvöðull á frisbígolfsviðinu á Austurlandi og hefur félagið m.a. „búið til“ tvo afreksmenn í frisbígolfi. Frisbígolf er hentug íþrótt fyrir langflesta og er kjörið að mæta í Tjarnargarðinn á laugardaginn og kynnast undirstöðuatriðunum.

CrossFit Austur býður upp á frían aðgang fyrir alla í WOD dagsins og á FIT æfingu dagsins á laugardag. Er WOD klukkan 10:00 en FIT æfing klukkan 12:00. Þá er hægt að nýta ferðina, kíkja á Austur Store, glæsilega verslun sem Sonja og félagar hafa komið upp í stöðinni, og jafnvel fá sér hollt og ferskt boozt sem gert er á staðnum. 

Í sundlauginni á Egilsstöðum verður boðið upp á sundleikfimi hjá Lillý Viðarsdóttur klukkan 10:00 til 10:45 bæði á laugardag og sunnudag. Þá verður Partýspinning hjá Steinunni Steinþórsdóttur báða dagana á milli klukkan 11:00 og 12:00 og má gera ráð fyrir miklu stuði. Tilvalið fyrir þá sem vilja ná hjartslættinum vel upp í byrjun dags. Frítt er inn á þá viðburði sem haldnir eru í Íþróttamiðstöð og sundlaug og er að sjálfsögðu hægt að fara í heitan eða kaldan pott og sána eftir púlið.

Ferðafélag Fljótsdalshéraðs býður alla velkomna í ferðir félagsins um helgina og í tilefni Hreyfiviku er frítt í báðar ferðir. Á laugardag er fjölskylduferð í Húsey þar sem gengið verður um sléttuna undir styrkri leiðsögn Málfríðar Ólafsdóttur, en á svæðinu er fjölbreytt náttúrulíf sem gaman er að skoða. Á sunnudeginum verður sunnudagsganga í Skálanes. Verður ekið að Austdalsá í Seyðisfirði og gengið þaðan út í Skálanes. Fararstjóri í þeirri ferð verður Stefán Kristmannsson. Mæting fyrir báðar þessar ferðir er við húsnæði félagsins að Tjarnarási 8.

Í næstu viku hefst svo sundnámskeið fyrir krakka fædd árið 2012, en það námskeið er góður undirbúningur fyrir komandi skólasund. Skráning er hjá Jónínu á netfangið joninabrynjolfs@gmail.com.

Þá hefst Sumarskóli Hattar einnig í næstu viku. Stendur Rekstrarfélag Hattar fyrir skemmtilegu námskeiði fyrir krakka sem voru að klára 1.-4. bekk. Hægt er að fá nánari upplýsingar og skrá nemendur á netfanginu hottur700@gmail.com.

Hér er svo hægt að sjá alla viðburði Hreyfiviku 2018.

Verum með og tökum þátt!