Hreyfivika fyrir og um helgina

Og á föstudag má koma og reyna að slá metið sem þessi snillingur setti í plankaáskorun Bókasafns Hér…
Og á föstudag má koma og reyna að slá metið sem þessi snillingur setti í plankaáskorun Bókasafns Héraðsbúa

Hreyfivika er komin vel af stað og hefur verið vel mætt í fjölbreytta viðburði þessa fyrstu daga.

Í dag, fimmtudag, klukkan 14:00 verður haldið rathlaup fyrir alla fjölskylduna í Selskógi. Er viðburðurinn fyrir fólk á öllum aldri enda rathlaup íþrótt sem flestir geta stundað á eigin forsendum. Væri gaman að sjá fólk fjölmenna í Selskóg og auka notin á því frábæra útivistarsvæði sem Selskógur er.

Þó svo að helgin nálgist og styttist í lok Hreyfiviku 2019 þá verður sannarlega nóg að gera um helgina.
Á föstudagsmorgun, kl.9:10, verður árleg Ekkjufellsganga Fellaskóla farin frá Þorgrímshæð. Er þessi hefð löngu orðin nauðsynlegur partur skólastarfsins og að venju eru allir velkomnir með í gönguna.

Á laugardaginn verður mikið stuð í Tjarnargarði þegar Þristur býður upp á frisbígolfmót fyrir alla fjölskylduna klukkan 14:00. Verður námskeiðinu slúttað með litlu móti og verða frisbígolfdiskar til láns á staðnum. Er um að gera að ungir sem aldnir mæti, og sem flestir úr hverri fjölskyldu, því fátt er skemmtilegra að gera saman en að trítla í Tjarnargarðinn og taka stuttan frisbígolfhring, til dæmis á sumarkvöldum.

Á laugardaginn er einnig opinn fimleikatími fyrir 10 ára og yngri í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum klukkan 11:00 og Dyrfjallahlaupsæfing, fyrir hlaupagarpa sem stefna á Dyrfjallahlaup eða önnur hlaup í sumar, hefst klukkan 11:15 við CrossFit Austur. Þá verður hægt að prufa bogfimi á milli klukkan 12:00 og 14:00 á Eiðum í boði Bogfimideildar Skaust, en þeirra sumarstarf er að hefjast af miklum krafti.

Á sunnudag er svo fjölskylduWOD fyrir alla fjölskylduna klukkan 10:00 í CrossFit Austur og er gaman fyrir alla á aldrinum 2-80 ára að æfa saman.

Í næstu viku hefst svo Sumarskóli Hattar.  Rekstrarfélag Hattar stendur fyrir skemmtilegu námskeiði fyrir krakka sem voru að klára 1.-3. bekk grunnskóla. Hægt er að fá nánari upplýsingar og skrá nemendur á netfanginu sumarskolihattar@gmail.com.

Athugið að alla daga er hægt að nálgast minigolfkylfur, frisbígolfdiska og RINGÓ hringi til láns á Egilsstaðastofu, en frábær aðstaða er til að iðka minigolf við Hlymsdali, frisbígolf í Tjarnargarðinum og RINGÓ á strandblakvöllunum í Bjarnardal.

Verum með og tökum þátt!