Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs

215. fundur 15. apríl 2015 kl. 17:00 - 18:15 í fundarsal bæjarstjórnar
Nefndarmenn
  • Anna Alexandersdóttir 1. varaforseti
  • Gunnar Jónsson forseti
  • Þórður Mar Þorsteinsson bæjarfulltrúi
  • Árni Kristinsson bæjarfulltrúi
  • Guðmundur Sveinsson Kröyer bæjarfulltrúi
  • Páll Sigvaldason bæjarfulltrúi
  • Anna Gunnhildur Ingvarsdóttir bæjarfulltrúi
  • Björn Ingimarsson bæjarstjóri
  • Stefán Snædal Bragason skrifstofu- og starfsmannastjóri
  • Ragnhildur Rós Indriðadóttir varamaður
  • Kristjana Jónsdóttir varamaður
Fundargerð ritaði: Stefán Bragason skrifstofustjóri

1.Starfsáætlun Fræðslusviðs 2015

Málsnúmer 201502132

Á fundinn mætti Davíð Þór Sigurðarson formaður fræðslunefndar sem kynnti starfsáætlun nefndarinnar fyrir árið 2015.

Starfsáætlunin lögð fram að öðru leyti.

2.Ársreikningur 2014

Málsnúmer 201501238

Björn Ingimarsson bæjarstjóri lagði fram ársreikning Fljótsdalshéraðs fyrir árið 2014 til síðari umræðu. Aðrir sem til máls tóku um ársreikninginn voru í þessari röð: Gunnar Jónsson og Gunnhildur Ingvarsdóttir.

Helstu niðurstöðutölur eru sem hér segir:

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu 2014 námu 3.394 millj. kr. samkvæmt samanteknum ársreikningi fyrir A og B hluta, en þar af námu rekstrartekjur A hluta 3.019 millj. kr.
Rekstrargjöld fyrir fjármagnsliði og afskriftir námu alls 2.665 millj. kr. í samanteknum ársreikningi 2014 fyrir A og B hluta, þar af námu rekstrargjöld A hluta 2.505 millj. kr. Afskriftir ársins í A og B hluta námu 273 millj. og þar af 181 millj. í A hluta. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 337 millj. í samanteknum A og B hluta, þar af 258 millj. í A hluta.
Eftir fjármagnsliði og afskriftir var rekstarafkoma ársins jákvæð um 129 millj. kr. í samanteknum A og B hluta. Þar af var afkoma A-hluta jákvæð um 75 millj. kr. Fyrir fjármagnsliði var rekstrarniðurstaða A og B hluta jákvæð um 456 millj.kr., þar af 333 millj. kr. í A hluta.
Handbært fé frá rekstri var jákvætt um 481 millj. kr. hjá samstæðu A og B hluta, þar af er handbært fé frá rekstri í A hluta um 318 millj. kr.
Fjárfestingahreyfingar ársins námu nettó 1.150 millj. kr. hjá samstæðu A og B hluta, þar af 88 millj. í A hluta.
Fjármögnunarhreyfingar ársins námu 603 millj. í samstæðu A og B hluta. Lántökur námu 1.837 millj. kr., en afborganir af lánum og leiguskuldbindingum námu 1.180 millj. kr. á árinu 2014. Inn í tölum um lántökur og afborganir af lánum og leiguskuldbindingum eru um 700 milljón kr. sem teknar voru að láni til að greiða upp leiguskuldbindingu við eignarhaldsfélagið Fasteign h.f.
Eignir samkvæmt efnahagsreikningi námu 8.634 millj. kr. í árslok 2014 fyrir A og B hluta, þar af nema heildareignir A hluta 5.577 millj. kr. í árslok 2014.

Heildarskuldir og skuldbindingar námu 8.549 millj. kr. í árslok 2014 fyrir A og B hluta. Þar af nema heildarskuldir og skuldbindingar A hluta 5.508 millj. kr.

Ársreikningurinn í heild sinni er að öðru leyti aðgengilegur á heimasíðu Fljótsdalshéraðs.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarstjórn samþykkir framlagðan samstæðureikning Fljótsdalshéraðs fyrir árið 2014 við síðari umræðu, en fyrri umræða um hann fór fram 1. apríl sl. Ársreikningurinn var jafnframt sendur Kauphöllinni til birtingar sama dag, fyrir fund bæjarstjórnar.
Með ársreikningum liggja einnig fyrir eftirfarandi gögn.
a) Skýrsla löggiltra endurskoðenda.
b) Sundurliðunarbók fyrir alla sjóði og fyrirtæki samstæðunnar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarstjórn samþykkir að boða til almenns borgarafundar þriðjudaginn 28. apríl n.k. kl. 20:00 þar sem ársreikningurinn verður kynntur.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

3.Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 291

Málsnúmer 1504002

Til máls tók: Gunnar Jónsson, sem kynnti fundargerðina og lagði fram drög að bókunum. Einnig ræddi hann sérstaklega lið 3.7.

Fundargerðin lögð fram.

3.1.Ársreikningur 2014

Málsnúmer 201501238

Vísað til afgreiðslu í lið 2.

3.2.Fjármál 2015

Málsnúmer 201501007

A fundi bæjarráðs var rætt um útboð á tryggingum sveitarfélagsins, sem eru í vinnslu.

Eftirfarandi tillaga lögð fram.
Að tillögu bæjarráðs samþykkir bæjarstjórn að útboðsferli og samningur við tryggingarfélag verði lokið fyrir lok októbermánaðar og að nýtt tryggingartímabil miðist við 1. janúar 2016.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Guðröður Hákonarson mætti til fundar með bæjarráði og kynnti fyrir hönd óstofnaðs hlutafélags væntanleg kaup á Eiðastað af Stóruþinghá ehf. Í kaupsamningi milli Fljótsdalshéraðs og Eiða ehf, hefur Fljótsdalshérað forkaupsrétt að eigninni. Guðröður lagði fram erindi þess efnis að sveitarfélagið félli frá forkaupsrétti sveitarfélagsins og kynnti kauptilboð félagsins í eignirnar.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarstjórn samþykkir að veita bæjarráði umboð til að taka afstöðu til þess hvort fallið verði frá forkaupsrétti þeirra eigna á Eiðastað er til stendur að selja, þegar að samningar á milli aðila liggja fyrir.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

3.3.Fundargerð 827. fundar Sambands íslenskra sveitarfélaga

Málsnúmer 201504017

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

3.4.Fundargerðir Ársala bs. 2015

Málsnúmer 201501268

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

3.5.Aðalfundur Lánasjóðs Sveitarfélaga ohf. 2015

Málsnúmer 201503168

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu bæjarráðs samþykkir bæjarstjórn að Björn Ingimarsson fari með umboð og atkvæði Fljótsdalshéraðs á fundinum.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

3.6.Samstarfsverkefni sveitarfélaga á Austurlandi

Málsnúmer 201504027

Lagt fram til kynningar.

3.7.Fjarskiptasamband í dreifbýli

Málsnúmer 201302127

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarstjórn samþykkir að kláruð verði sú undirbúningsvinna vegna ljósleiðaravæðingar í dreifbýli sveitarfélagsins sem nauðsynleg er, þegar fyrir liggur hvernig staðið verður að framlögum ríkisins til verkefnisins.
Bæjarráð bindur vonir við að á grundvelli tillagna starfshóps innanríkisráðherra, verði samþykkt að veita fjármunum til verkefnisins frá og með árinu 2016.

Bæjarráð samþykkir að skipa Hadd Áslaugsson, Stefán Bragason og Ómar Þröst Björgólfsson í starfshóp til að ljúka þeirri undirbúningsvinnu sem hafin er og að framan greinir.
Bæjarstjóra og formanni bæjarráðs falið að kanna möguleika á útfærslu tímabundinna lausna á fjarskiptasambandi í dreifbýlinu, fyrir næsta fund bæjarráðs.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.Umhverfis- og framkvæmdanefnd - 21

Málsnúmer 1503024

Til máls tóku: Árni Kristinsson, sem kynnti fundargerðina og lagði fram drög að bókunum. Þórður Mar Þorsteinsson, sem ræddi lið 4.9 og bar fram fyrirspurn. Páll Sigvaldason, sem ræddi liði 4.9 og 4.16 og bar fram fyrirspurnir og Árni Kristinsson sem ræddi liði 4.16 og 4.9 og svaraði fyrirspurn.

Fundargerðin lögð fram.

4.1.Landsvirkjun staða mála

Málsnúmer 201503038

Lagt fram til kynningar.

4.2.Miðbæjarskipulag, hönnunarteymi

Málsnúmer 201409113

Fyrir liggja hugmyndir hönnunarteymis sem innlegg í endurskoðun deiliskipulags fyrir Miðbæ Egilsstaða. Anna María Þórhallsdóttir, Steinrún Ótta Stefánsdóttir og Bylgja Lind Pétursdóttir,kynntu umhverfis- og framkvæmdanefnd hugmyndirnar.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarstjórn tekur undir með umhverfis- og framkvæmdanefnd og þakkar vinnu starfshópsins og er hlynnt því að hugmyndirnar verði nýttar í vinnu við endurskoðun deiliskipulags miðbæjar Egilsstaða.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.3.Uppsalir í Eiðaþinghá Aðalskipulagsbreyting

Málsnúmer 201411045

Lögð er fram skipulagslýsing fyrir Uppsali, Fljótsdalshéraði vegna fyrirhugaðrar breytingar á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 og gerð deiliskipulags fyrir sama svæði, samkvæmt 30.gr.skipulagslaga nr.123/2010.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu umhverfis- og framkvæmdanefndar samþykkir bæjarstjórn framlagða skipulagslýsingu og felur umhverfis- og skipulagsfulltrúa að kynna hana samkvæmt 30. gr. Skipulagslaga nr.123/2010.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.4.Ylströnd, breyting á Aðalskipulagi

Málsnúmer 201408036

Lögð er fram tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028, Sveitarfélagsuppdráttur B. Tillagan er sett fram á uppdrætti ásamt greinargerð dags.1. apríl 2015 og felur m.a. í sér að við greinargerðina er bætt kafla 9.22 afþreyingar og ferðamannasvæði AF1 baðstaður við Urriðavatn. Jafnframt er breytt landnotkun eins og fram kemur í tillögunni. Tillagan hefur verið kynnt samkvæmt 30. gr. Skipulagslaga nr.123/2010.
Brugðist hefur verið við þeim athugasemdum sem bárust við tillöguna.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu umhverfis- og framkvæmdanefndar samþykkir bæjarstjórn framlagða tillögu og að hún verði auglýst skv.31. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010, geri Skipulagsstofnun ekki athugasemd við tillöguna skv. 30. gr. Skipulagslaga.
Tillagan verði auglýst samhliða tillögu að deiliskipulagi fyrir Ylströnd við Urriðavatn.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.5.Ylströnd við Urriðavatn, deiliskipulag

Málsnúmer 201501002

Lögð er fram tillaga að deiliskipulagi Ylströnd við Urriðavatn sem afmarkast af Urriðavatni til norðurs og vesturs en Hróarstunguvegi til austurs og landbúnaðarlandi, skv.aðalskipulagi, til suðurs. Tillagan er sett fram á uppdrætti ásamt greinargerð og umhverfisskýrslu dags. 02.01. 2015 og felur m.a. í sér skipulag fyrir ylströnd og byggingar henni tengdar.
Brugðist hefur verið við þeim athugasemdum sem bárust við tillöguna.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu umhverfis- og framkvæmdanefndar samþykkir bæjarstjórn framlagða tillögu og að hún verði auglýst skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Tillagan verði auglýst samhliða tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.6.Tjarnarland breyting á deiliskipulagi

Málsnúmer 201503183

Lögð er fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir urðunarstaðinn á Tjarnarlandi. Breytingin er sett fram í greinargerð dags. 31.02. 2015 og felur í sér eftirfarandi breytingu: Í gildandi deiliskipulagi er gert ráð fyrir 2000 tonnum af úrgangi til urðunar á ári, en breytist í 2500 tonn á ári. Við breytinguna mun líftíminn styttast um 16 ár og svæðið verða fullt 2076 en ekki 2092. Texti í kafla 3.3.1 og tafla 1, Urðun og tafla 1 Stærð og líftími urðunarhólfa, er breytt.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu umhverfis- og framkvæmdanefndar samþykkir bæjarstjórn framlagða tillögu og að breytingin verði metin óveruleg og felur skipulags- og umhverfisfulltrúa að grenndarkynna breytinguna skv. 2. mgr. 43. gr. Skipulagslaga nr.123/2010.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.7.Deiliskipulag Miðás(suður)og Brúnás

Málsnúmer 201412031

Lögð er fram leiðrétt tillaga að deiliskipulagi fyrir Miðás (suður) og Brúnás, vegna ábendingar frá Skipulagsstofnun.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu umhverfis- og framkvæmdanefndar samþykkir bæjarstjórn framlagða tillögu og felur skipulags- og umhverfisfulltrúa að senda Skipulagsstofnun samþykkta deiliskipulagsbreytingu og auglýsa breytinguna í B-deild Stjórnartíðinda.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.8.Tilnefning svæða í norræna skipulagssamkeppni

Málsnúmer 201503156

Í vinnslu.

4.9.Hrægámar

Málsnúmer 201503187

Til umræðu er að staðsetja hrægáma í sveitarfélaginu. Fyrir liggur tilboð frá Íslenska gámafélaginu í leigu á gámum.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu umhverfis- og framkvæmdanefndar samþykkir bæjarstjórn að taka tilboði Íslenska gámafélagsins og kostnaður vegna þessa verði tekinn af lið 13290 önnur landbúnaðarmál.
Jafnframt samþykkir bæjarstjórn að fela starfsmanni að taka saman upplýsingar frá öðrum sveitarfélögum um söfnun dýrahræja.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.10.Breyting á Aðalskipulagi Fjarðabyggðar til umsagnar

Málsnúmer 201503189

Erindi í tölvupósti dagsett 25.03. 2015 þar sem óskað er eftir umsögn sveitarfélagsins um tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Fjarðabyggðar 2007-2027.
Óskað er eftir að umsagnir berist fyrir 8. apríl næstkomandi.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu umhverfis- og framkvæmdanefndar gerir bæjarstjórn ekki athugasemd við tillöguna.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.11.Umsókn um stofnun fasteigna í fasteignaskrá

Málsnúmer 201503163

Erindi dagsett 26.03. 2015 þar sem Kári Helgfell Jónasson kt. 190362-5749 óskar eftir stofnun tveggja nýrra lóða skv. 14. gr. laga nr.6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Fyrir liggja lóðablöð dagsett 18.02. 2015.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:

Að tillögu umhverfis-og framkvæmdanefndar samþykkir bæjarstjórn erindi umsækjanda og felur umhverfis- og skipulagsfulltrúa að stofna lóðirnar í Þjóðskrá.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.12.Milliloft í Grunnskólann á Egilsstöðum

Málsnúmer 201503039

Í vinnslu.

4.13.Tilkynning um nýræktun skóga

Málsnúmer 201503042

Lagt fram til kynningar.

4.14.Hringrás Endurvinnsla, boð um samstarf

Málsnúmer 201503146

Lagt fram til kynningar.

4.15.Tjarnarland, urðunarstaður 2015

Málsnúmer 201501124

Til umræðu er möguleg samvinna við Seyðisfjörð og Fljótsdalshrepp um úrgangsmál (sorphirðu). Fyrir liggur tölvupóstur dagsettur 11.02. 2015 frá Vilhjálmi Jónssyni Seyðisfirði og tölvupóstur dagsettur 11.03. 2015 frá Gunnþórunn Ingólfsdóttur Fljótsdalshreppi.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarstjórn tekur undir með umhverfis- og framkvæmdanefnd og samþykkir að höfð verði samvinna við Seyðisfjarðarkaupstað og Fljótsdalshrepp um úrgangsmál. Bent er á að við gerð útboðsgagna vegna sorphirðu þarf að liggja fyrir með hvaða hætti þessi sveitarfélög komi að verkefninu.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.16.Umsókn um byggingarlóð/Miðás 39

Málsnúmer 201504008

Erindi dagsett 01.04. 2015 þar sem Þröstur Stefánsson f.h. Þ.S. Verktaka kt. 410200-3250 sækir um lóðina Miðás 39 sem geymslulóð.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu umhverfis- og framkvæmdanefndar samþykkir bæjarstjórn erindi umsækjanda. Bæjarstjórn samþykkir að fela umhverfis- og skipulagsfulltrúa að tilkynna þeim, sem hafa nýtt lóðina sem geymslulóð, um niðurstöðu nefndarinnar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.17.Landsskipulagsstefna 2015-2026

Málsnúmer 201401195

Lagt fram til kynningar.

4.18.Umhverfis- og framkvæmdanefnd, verkefni framundan

Málsnúmer 201501232

Í vinnslu.

4.19.Bæjarstjórnarbekkurinn 19.03.2015

Málsnúmer 201504014

Í vinnslu.

4.20.Íþróttamiðstöðin merking við bílastæði

Málsnúmer 201504015

Til umræðu er uppsetning umferðarmerkja við suðurhluta bílastæða við Íþróttamiðstöðina. Fyrir liggur tölvupóstur dagsettur 26.03. 2015 frá umsjónamanni fasteigna.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu umhverfis- og framkvæmdanefndar samþykkir bæjarstjórn framlagða tillögu um bann við bifreiðastöðu og að breytingin verði færð í Auglýsingu um umferð á Fljótshéraði.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

4.21.Þjónustusamfélagið á Héraði

Málsnúmer 201504016

Lagðar eru fram myndir frá Þjónustusamfélaginu á Héraði til að leggja áherslu á mikilvægi þess að hugað sé vel að umhverfinu.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu umhverfis- og framkvæmdanefndar samþykkir bæjarstjórn að fela starfsmanni umhverfis- og framkvæmdanefndar að sjá til þess að hafin verði sem fyrst vinna við tiltekt í þéttbýlinu og viðgerðir á kantsteinum o.fl. sem skemmst hefur á liðnum vetri.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Fundi slitið - kl. 18:15.