Framtíðarskipulag Hallormsstaðaskóla - vísað til skólanefndar frá sveitarstjórnum

Málsnúmer 201312036

Vakta málsnúmer

Skólanefnd Hallormsstaðaskóla - 23. fundur - 13.12.2013

Að gefnu tilefni vill formaður skólanefndar fyrir hönd starfshóps um framtíðarskipulag Hallormsstaðaskóla árétta að sú mynd sem dregin er upp af skólastarfi í Hallormsstaðaskóla í greinargerð starfshópsins byggir á skólaárinu 2012-2013 enda starfshópurinn skipaður á því skólaári.

Gunnþórunn Ingólfsdóttir sem sat fundinn sem oddviti Fljótsdalshrepps benti á að báðar sveitarstjórninar standa að baki þeirri ákvörðun að fela skólanefnd að vinna að einhverri útfærslu á svonefndri tillögu 2 úr skýrslu starfshóps um framtíðarskipulag Hallormsstaðaskóla. Gunnþórunn benti á að í því fælist áhersla á að áfram verði skólastarf á Hallormsstað. Hún vísaði í því sambandi á bókun Fljótsdalshrepps um málið.

Formaður fór yfir það starf sem nefndinni er falið með þessu verkefni og lagði áherslu á að mikilvægt væri að það starf hefjist sem fyrst, eða strax eftir áramót.

Ragnhildur Rós Indriðadóttir óskaði eftir að eftirfarandi væri bókað: Sú skýrsla sem lögð er til grundvallar ákvörðun um framtíðarskipulag Hallormsstaðaskóla var unnin af kjörnum fulltrúm beggja sveitarfélaga, þar á meðal fulltrúa í skólanefnd skólans. Að mínu mati torveldar það umræðu um skýrsluna. Eðlilegra hefði verið að fenginn hefði verið hlutlaus, utanaðkomandi fagmaður til að vinna skýrsluna.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 247. fundur - 08.01.2014

Bæjarráð leggur áherslu á að unnið verði áfram í samræmi við þá ákvörðun sem bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs tók um málið 4. des. sl. og byggði á sameiginlegri niðurstöðu af fundi bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs og sveitarstjórnar Fljótsdalshrepps.

Eftirfarandi tillaga lögð fram.
Bæjarráð samþykkir að verða við ósk oddvita Fljótsdalshrepps um sameiginlegan fund sveitarstjórnanna vegna Hallormsstaðaskóla.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Skólanefnd Hallormsstaðaskóla - 24. fundur - 16.01.2014

Formaður fór yfir það sem gerst hefur síðan skólanefnd fjallaði síðast um málið. Sveitarstjórnirnar funduðu fyrr í vikunni og tóku afstöðu til ýmissa spurninga sem höfðu vaknað við umfjöllun um málið. Í ljósi þess sem þar kom fram leggur formaður til að skipaður verði vinnuhópur til að vinna að verkefninu. Þennan vinnuhóp skipi Sigurlaug Jónasdóttur, sem stýri starfi hópsins, Ruth Magnúsdóttir, Elín Rán Björnsdóttir og Helga Guðmundsdóttir. Fasteigna- og þjónustufulltrúi komi að starfi hópsins eftir því sem þörf verður fyrir. Formaður ítrekaði að öll fyrirliggjandi gögn, ábendingar og athugasemdir sem lagðar hafa verið fram af hinum ýmsu hagsmunahópum eru hluti af vinnugögnum vinnuhópsins. Skipan hópsins samþykkt samhljóða með þremur atkvæðum, einn sat hjá (HÞ). Rætt um að mikilvægi þess að vinnuhópurinn vinni hratt. Stefnt skal að því að hópurinn skili frumtillögum til skólanefndar um miðjan febrúar.

Skólanefnd Hallormsstaðaskóla - 25. fundur - 21.02.2014

Formaður kynnti þá greinargerð sem send hafði verið til fundarmanna og unnin var af starfshópi sem skólanefnd skipaði til verkefnisins. Umræða um skýrsluna í heild sinni og spurningar um ákveðin atriði sem höfundar greinargerðarinnar svöruðu. Skólanefnd þakkar vel unna greinargerð.

Formaður gerði að tillögu sinni að boðað yrði til sameiginlegs kynningarfundar fyrir foreldra, nemendur, starfsfólk, skólanefnd og fulltrúa sveitarstjórnanna þar sem höfundar greinargerðarinnar sitji fyrir svörum nk. fimmtudag, 27. febrúar kl. 17:00. Elínu Rán falið að senda greinargerðina til foreldra og starfsfólks. Jafnframt verði kallað eftir umsögn skólaráðs sem liggi fyrir næsta fundi í skólanefnd þar sem greinargerðin verður afgreidd frá nefndinni. Tillagan samþykkt samhljóða. Stefnt er á að næsti skólanefndarfundur verði þriðjudaginn 4. mars kl. 13:30.

Skólanefnd Hallormsstaðaskóla - 26. fundur - 04.03.2014

Auk greinargerðar starfshóps sem var til umræðu á síðasta fundi skólanefndar lágu fyrir fundinum fundargerð frá fundi með skólasamfélaginu 27. febrúar og fundargerð skólaráðs frá 28. febrúar sl. Skólanefnd lýsir yfir stuðningi við þær tillögur sem koma fram í greinargerð starfshópsins og vísar málinu til endanlegrar afgreiðslu í sveitarstjórn Fljótsdalshrepps og bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 192. fundur - 05.03.2014

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarstjórn þakkar starfshóp um framtíðarskipulag Hallormsstaðaskóla fyrir vel unnin störf og lýsir ánægju sinni með að tillögur nefndarinnar hafa fengið ágætar undirtektir hjá foreldrum og starfsmönnum skólans. Bæjarstjórn samþykkir að vísa málinu til kynningar og umsagnar fræðslunefndar. Málið verður tekið til afgreiðslu á næsta fundi bæjarstjórnar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Fræðslunefnd Fljótsdalshéraðs - 198. fundur - 10.03.2014

Fræðslunefnd samþykkir fyrir sitt leyti að unnið verði út frá framlögðum tillögum í greinargerð starfshóps um framtíðarskipulag skólastarfs á Hallormsstað. Nefndin bendir á að þau atriði sem snúa að húsnæðismálum þarfnast nánari umfjöllunar í sveitarstjórnunum. Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 193. fundur - 19.03.2014

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarstjórn tekur undir með fræðslunefnd og samþykkir að unnið verði út frá framlögðum tillögum í greinargerð starfshóps um framtíðarskipulag skólastarfs á Hallormsstað. Bæjarstjórn bendir þó á að þau atriði sem snúa að húsnæðismálum þarfnast nánari umfjöllunar í sveitarstjórnunum. Bæjarstjóra falið að heimila skólastjóra Egilsstaðaskóla að undirbúa og ganga frá ráðningu starfsmanna fyrir komandi skólaár vegna umræddra breytinga.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 282. fundur - 02.02.2015

Lögð fram drög að ályktun um skólastarf á Hallormsstað.

Bæjarráð staðfestir fyrir sitt leyti framlögð drög, með þeim tillögum að orðalagsbreytingum sem oddviti Fljótsdalshrepps hefur komið á framfæri og vísar þeim til bæjarstjórnar til afgreiðslu.

Kynntar hugmyndir að endurskoðuðum leigusamninga milli Gráa hundsins og Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps, um leigu á hluta af skólahúsnæðinu á Hallormsstað og einnig samningur um leigu á íbúð á fyrstu hæð.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga til samninga við leigutaka á grundvelli framlagðra samningsdraga.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 210. fundur - 04.02.2015

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Hallormsstaðaskóli á farsæla sögu allt frá því skólinn var settur í fyrsta sinn í upphafi árs 1967. Undanfarin ár hefur börnum í skólahverfi skólans hins vegar farið stöðugt fækkandi og sum þeirra sækja skólavist í aðra skóla en sinn heimaskóla. Nemendur Hallormsstaðaskóla fylla á skólaárinu 2014-2015 aðeins einn tug. Þar sem ekki eru vísbendingar um breytingar á þessari þróun er það mat þeirra sem að skólanum standa, þ.e. sveitarfélaganna Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps, að ekki séu lengur forsendur fyrir að skólahaldi í Hallormsstaðaskóla verði haldið þar áfram og er lagt til að því verði hætt frá og með næsta skólaári. Í framhaldi af því þurfa sveitarstjórnirnar að skipa sem fyrst starfshóp sem fái það verkefni að vinna drög að nýjum samningi á milli sveitarfélaganna um samstarf í grunn,-leik- og tónlistarskólaþjónustu

Jafnframt taki sveitarstjórnirnar afstöðu til þess hvernig skuli farið með þær eignir er hýst hafa skólastarf á Hallormsstað á umliðnum árum.

Í starfshópnum sitji oddviti Fljótsdalshrepps, ásamt öðrum fulltrúa frá Fljótsdalshreppi og bæjarstjóri Fljótdalshéraðs, ásamt öðrum fulltrúa frá Fljótsdalshéraði. Með hópnum starfi fræðslufulltrúi og starfsmaður eignasviðs Fljótsdalshéraðs. Stefnt verði að því að starfshópurinn taki sem fyrst til starfa og að drög að nýjum samningi milli sveitarfélaganna liggi fyrir eigi síðar en 1. mars 2015. Bæjarráði verði falið að ganga frá skipan í starfshópinn.

Bæjarstjórn óskar eftir því við fræðslunefnd að hún fjalli um frágang við lok skólahalds á Hallormsstað í samráði við sveitarstjórn Fljótsdalshrepps.

Afgreiðsla bæjarráðs að öðru leyti staðfest.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 283. fundur - 09.02.2015

Kynnt drög að samningi um útleigu hluta af húsnæði grunnskólans á Hallormsstað næsta sumar, og einnig leigusamningur fyrir kennaraíbúð á jarðhæð skólans. Samningsdrögin hafa verið unnin í samráði við oddvita Fljótsdalshrepps.

Bæjarráð staðfestir samninginn og felur bæjarstjóra að undirrita hann.


Bæjarráð samþykkir að tilnefna Björn Ingimarsson bæjarstjóra og Davíð Sigurðarson formann fræðslunefndar sem fulltrúa sína í starfshóp um samstarf Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps um grunn- leik- og tónlistarskóla.
Með hópnum munu starfa Helga Guðmundsdóttir fræðslufulltrúi og Hreinn Halldórsson umsjónarmaður fasteigna Fljótsdalshéraðs.

Hópurinn mun jafnfram taka til skoðunar og gera tillögu til sveitarstjórna um ferli við ráðstöfun sameiginlegra eigna sveitarfélaganna á Hallormsstað.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 211. fundur - 18.02.2015

Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu bæjarráðs og skipan í starfshóp um framtíðarskipulag Hallormsstaðaskóla.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 286. fundur - 02.03.2015

Lagðar fram þrjár fundargerðir starfshóps um málefni Hallormsstaðaskóla, frá 13.02, 18.02 og 25.02.

Bæjarstjóri kynnti drög að samningum milli sveitarfélaganna um aðgengi Fljótsdalshrepps að grunn- leik- og tónlistarskólum Fljótsdalshéraðs. Stefnt er að því að leggja endanleg drög fyrir sveitarstjórnirnar í næstu viku.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 287. fundur - 09.03.2015

Bæjarstjóri sagði frá fundum starfshóps um málið og fór yfir stöðu samninga.

Bæjarráð samþykkir að veita bæjarstjóra heimild til að ganga frá þjónustusamningum við Fljótsdalshrepp um leik- grunn- og tónlistarskóla, á þeim grunni sem kynnt var á fundinum.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 213. fundur - 18.03.2015

Á fundi bæjarráðs sagði bæjarstjóri frá fundum starfshóps um málið og fór yfir stöðu samninga.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu bæjarráðs samþykkir bæjarstjórn að veita bæjarstjóra heimild til að ganga frá þjónustusamningum við Fljótsdalshrepp um leik- grunn- og tónlistarskóla, á þeim grunni sem kynnt var á fundinum.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Fræðslunefnd Fljótsdalshéraðs - 214. fundur - 25.03.2015

Lagðir fram til kynningar samningar um grunnskóla-, leikskóla og tónlistarskóla milli Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 298. fundur - 08.06.2015

Bæjarráð samþykkir fyrir sitt leyti tillögu starfshópsins um að auglýsa húsnæði Hallormsstaðaskóla til sölu. Drög að auglýsingu verði kynnt bæjarráði áður en hún verður birt.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 301. fundur - 29.06.2015

Lögð fram til kynningar fundargerð starfshóps um málefni Hallormstaðaskóla dagsett 23. júní 2015.

Bæjarráð samþykkti drög að samningi við rekstaraðila Hótels á Hallormsstað um sturtuaðstöðu í íþróttahúsinu á Hallormsstað.

Björn kynnti gagntilboð sem gert var vegna sölu á íbúðum í eigu Fljótsdalshrepps og Fljótsdalshéraðs að Fjósakambi 6 a og b. Bæjarráð samþykkir fyrir sitt leyti tilboðið.
Sigrún Blöndal vék af fundi við umræðu og afgreiðslu þessa liðar.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 220. fundur - 01.07.2015

Lögð fram til kynningar fundargerð starfshóps um málefni Hallormstaðaskóla dagsett 23. júní 2015.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarstjórn samþykkir drög að samningi við rekstaraðila Hótels Hallormsstaðar um sturtuaðstöðu í íþróttahúsinu á Hallormsstað.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.


Bæjarstjóri kynnti gagntilboð sem gert var vegna sölu á íbúðum í eigu Fljótsdalshrepps og Fljótsdalshéraðs að Fjósakambi 6 a og b.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu bæjarráðs samþykkir bæjarstjórn fyrir sitt leyti tilboðið.

Samþykkt með 7 atkvæðum, einn sat hjá (PS), einn var fjarverandi.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 305. fundur - 10.08.2015

Bæjarstjóra falið að vinna málið áfram í samræmi við umræður á fundinum.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 308. fundur - 01.09.2015

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að gerður verði kaupsamningur við 701 hotels ehf. á grundvelli gagntilboðs sem dagsett er 26. ágúst 2015 og tekur til eftirtalinna eigna: Kennsluhúsnæði, heimavist, mötuneytisaðstaða, íþróttahús og sundlaug, auk eignarhluta Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps í tveimur íbúðum í skólahúsnæðinu, samtals 25% hlut í hvorri íbúð.
Tilboðsfjárhæðin nemur 105.000.000 kr. og greiðist hún með tveimur greiðslum. Við undirritun kaupsamnings kr. 31.000.000 og þann 1.10.2016 kr. 74.000.000.
Áætlaður afhendingardagur eignanna er 1. nóvember 2015.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.


Einnig lögð fram til afgreiðslu fundargerð starfshóps um málefni Hallormsstaðaskóla dagsett 31.08. 2015.
Bæjarráð tekur undir tillögu hópsins um að Fljótsdalshérað leysi til sín hlut Fljótsdalshrepps í lausabúnaði skólans, þegar endanleg niðurstaða verðmats liggur fyrir. Fræðslunefnd falið að undirbúa frágang og ráðstöfun lausabúnaðar.

Ræddar framkomnar hugmyndir aðila varðandi slit á samstarfssamningi frá 01.01 2010 og uppgjör því tengdu.
Bæjarstjóra falið að vinna málið áfram í samræmi við umræður á fundinum og honum veitt umboð til að ganga frá drögum að samningum varðandi slit á samstarfssamningi og uppgjörs vegna lausabúnaðar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 222. fundur - 02.09.2015

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarstjórn samþykkir að gerður verði kaupsamningur við 701 hotels ehf. á grundvelli gagntilboðs sem dagsett er 26. ágúst 2015 og tekur til eftirtalinna eigna: Kennsluhúsnæðis, heimavistar, mötuneytisaðstöðu, íþróttahúss og sundlaugar, auk eignarhluta Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps í tveimur íbúðum í skólahúsnæðinu, samtals 25% hlut í hvorri íbúð.
Tilboðsfjárhæðin nemur 105.000.000 kr. og greiðist hún með tveimur greiðslum. Við undirritun kaupsamnings kr. 31.000.000 og þann 1.10.2016 kr. 74.000.000.
Áætlaður afhendingardagur eignanna er 1. nóvember 2015.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.


Einnig lögð fram til afgreiðslu fundargerð starfshóps um málefni Hallormsstaðaskóla dagsett 31.08. 2015.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarstjórn tekur undir og samþykkir tillögu hópsins um að Fljótsdalshérað leysi til sín hlut Fljótsdalshrepps í lausabúnaði skólans, þegar endanleg niðurstaða verðmats liggur fyrir. Fræðslunefnd falið að undirbúa frágang og ráðstöfun lausabúnaðar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Á fundi bæjarráðs voru ræddar framkomnar hugmyndir aðila varðandi slit á samstarfssamningi frá 01.01 2010 og uppgjör því tengdu.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarstjórn samþykkir að fela bæjarstjóra að vinna málið áfram fh. Fljótsdalshéraðs í samræmi við umræður á fundi bæjarráðs og honum veitt umboð til að ganga frá drögum að samningum varðandi slit á samstarfssamningi og uppgjörs vegna lausabúnaðar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 313. fundur - 05.10.2015

Björn Ingimarsson fór yfir fund samráðshópsins og verkefni hans.

Einnig lagði hann fram drög að samkomulagi Fljótsdalshrepps og Fljótsdalshéraðs um lok samstarfssamnings um Hallormsstaðaskóla.
Bæjarráð samþykkir að gengið verði frá samkomulagi við Fljótsdalshrepp á þeim nótum sem samningsdrögin gera ráð fyrir.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 224. fundur - 07.10.2015

Fyrir liggja drög að samkomulagi Fljótsdalshrepps og Fljótsdalshéraðs um lok samstarfssamnings um Hallormsstaðaskóla.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu bæjarráðs samþykkir bæjarstjórn að gengið verði frá samkomulagi við Fljótsdalshrepp á þeim nótum sem samningsdrögin gera ráð fyrir.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 314. fundur - 12.10.2015

Bæjarstóri fór yfir viðræður við fulltrúa Fljótsdalshrepps varðandi verðmat á lausamunum í Hallormsstaðaskóla.

Bæjarstjóra falið að ljúka málinu.