Bæjarráð Fljótsdalshéraðs

298. fundur 08. júní 2015 kl. 09:00 - 11:45 í fundarsal bæjarstjórnar
Nefndarmenn
  • Gunnar Jónsson formaður
  • Anna Alexandersdóttir varaformaður
  • Stefán Bogi Sveinsson aðalmaður
  • Árni Kristinsson 1. varamaður
  • Stefán Snædal Bragason skrifstofu- og starfsmannastjóri
Fundargerð ritaði: Stefán Bragason skrifstofustjóri

1.Fjármál 2015

Málsnúmer 201501007

Guðlaugur Sæbjörnsson fjármálastjóri sat fundinn undir þessum lið og fór yfir nokkra fjármálatengda liði.

2.Fjárhagsáætlun 2016

Málsnúmer 201504075

Guðlaugur Sæbjörnsson fjármálastjóri sat fundinn undir þessum lið og kynnti drög að rammaáætlun fyrir árið 2016. Þar hefur hann tekið saman áætlanir og fjárbeiðnir frá öllum stofnunum og nefndum og gert tillögu að aðlögun þeirra að ramma þriggja ára áætlunar, eins og hún hefur verið samþykkt áður fyrir árið 2016.
Að lokinni kynningu og yfirferð var ramma að fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 vísað til næsta bæjarráðsfundar til afgreiðslu.

3.Fundargerð 828. fundar Sambands íslenskra sveitarfélaga

Málsnúmer 201506041

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

4.Framtíðarskipulag Hallormsstaðaskóla.

Málsnúmer 201312036

Bæjarráð samþykkir fyrir sitt leyti tillögu starfshópsins um að auglýsa húsnæði Hallormsstaðaskóla til sölu. Drög að auglýsingu verði kynnt bæjarráði áður en hún verður birt.

5.Sóknaráætlun Austurlands 2015-2019

Málsnúmer 201506023

Lagður fram tölvupóstur frá Austurbrú, dags. 1. júní 2015, með beiðni um umsögn við sóknaráætlun Austurlands 2015-2019.
Bæjarráð mun ekki taka saman sérstakar athugasemdir við sóknaráætlunina, en hvetur íbúa sveitarfélagsins til að kynna sér drögin og gera þá athugasemdir ef ástæða þykir til. Drögin er að finna á heimasíðu Austurbrúar,(austurbru.is)

6.Uppbygging ljósleiðaravæðingar

Málsnúmer 201504114

Lagt fram bréf frá Póst- og fjarskiptastofnun, dags. 3. júní, um ljósleiðaravæðingu og fjarskipti í dreifbýli á Fljótsdalshéraði.
Í framhaldi af því er skrifstofustjóra og umsjónarmanni tölvumála falið að senda sem fyrst fyrirspurnir til Fjarskiptasjóðs, s.b.r. ábendingar í bréfi Póst- og fjarskiptastofnunnar.

7.Ályktun frá aðalfundi Búnaðarsambands Austurlands 11.apríl 2015

Málsnúmer 201506042

Lögð fram ályktun frá aðalfundi Búnaðarsambands Austurlands 11. apríl 2015 varðandi það að sveitarfélögin á starfssvæði BsA. styrki garnaveikibólusetningar árlega þar sem bólusetja þarf.
Jafnframt fer stjórn BsA þess á leit við sveitarstjórnarmenn að þeir hlutist til um að styrkja þá bændur sem sannarlega hafa orðið fyrir tjóni af völdum garnaveiki.

Varðandi garnaveikibólusetningu felur bæjarráð bæjarstjóra að láta taka saman upplýsingar um umfang átaksins og kanna með hvaða hætti þátttaka sveitarfélagsins var í svipuðu bólusetningarátaki sem gert var í Jökulsárhlíð fyrir nokkrum árum.

Að öðru leyti sér bæjarráð sér ekki fært að leggja til sérstakan stuðning við þá sem orðið hafa fyrir tjóni vegna garnaveiki.

8.Gróðursetning trjáplantna í tilefni 35 ára kosningarafmælis Vigdísar Finnbogadóttur

Málsnúmer 201506046

Lagt fram erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 3. júní 2015 þar sem sveitarfélög eru hvött til gróðursetningar trjáplantna laugardaginn 27. júní nk. til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur í tilefni þess að 35 ár eru liðin frá því að hún var kjörin í embætti forseta Íslands, fyrst kvenna í heiminum sem þjóðkjörinn forseti.

Bæjarráð tekur vel í hugmyndina, en erindið er að öðru leyti til afgreiðslu hjá umhverfis- og framkvæmdanefnd.

Fundi slitið - kl. 11:45.