Úttekt á skólastarfi á Fljótsdalshéraði

Málsnúmer 201411048

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 274. fundur - 17.11.2014

Lögð fram drög að úttektarferli frá Háskólanum á Akureyri og Miðstöð skólaþróunar, sem unnið hefur verið í samráði við bæjarstjóra og bæjarráð.

Bæjarráð samþykkir að ráðast í verkefnið, en óskar jafnframt eftir fundi með úttektaraðila, þar sem farið verður betur yfir ferli úttektarinnar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 207. fundur - 19.11.2014

Lögð fram drög að úttektarferli frá Háskólanum á Akureyri og Miðstöð skólaþróunar, sem unnið hefur verið í samráði við bæjarstjóra og bæjarráð.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu bæjarráðs samþykkir bæjarstjórn að ráðast í verkefnið, en óskar jafnframt eftir fundi bæjarráðs með úttektaraðila, þar sem farið verður betur yfir ferli úttektarinnar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 275. fundur - 24.11.2014

Sigrún Blöndal vék af fundi undir þessum lið og tók Árni Kristinsson sæti hennar.

Fundarmen voru í símasambandi við Birnu M. Svanbergsdóttir hjá Miðstöð skólaþróunar Háskólans á Akureyri og fóru með henni yfir upplegg könnunarinnar og ræddu við hana um útfærslur og aðferðafræði.
Stefnt er að því að hefja vinnuna fyrri hluta desember og að niðurstöður liggi fyrir um mánaðarmótin febrúar og mars.
Bæjarráð óskar eftir að Helga Guðmundsdóttir verði tengiliður sveitarfélagsins við Miðstöð skólaþróunar varðandi praktiska þætti við vinnslu á úttektinni.
Bæjarstjóra falið að koma þeim upplýsintum til Birnu Svanbergsdóttur og setja úttektina formlega af stað.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 208. fundur - 03.12.2014

Fram kom í bæjarráði að stefnt er að því að hefja vinnuna fyrri hluta desember og að niðurstöður liggi fyrir um mánaðarmótin febrúar og mars.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu bæjarráðs óskar bæjarstjórn eftir að Helga Guðmundsdóttir verði tengiliður sveitarfélagsins við Miðstöð skólaþróunar H.A. varðandi praktiska þætti við vinnslu á úttektinni.
Bæjarstjóra falið að koma þeim upplýsingum til Birnu Svanbergsdóttur verkefnisstjóra og setja úttektina formlega af stað.

Samþykkt með handauppréttingu með 7 atkvæðum, en 2 voru fjarverandi (SBl. og ÞÞ.)

Fræðslunefnd Fljótsdalshéraðs - 210. fundur - 09.12.2014

Björn Ingimarsson, bæjarstjóri, fór yfir vinnuferli sem framundan er vegna fyrirhugaðrar vinnu Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri við úttekt á grunn- og tónlistarskólum á Fljótsdalshéraði.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 292. fundur - 20.04.2015

Skil á skýrslu um úttekt á skólastarfi verða föstudaginn 24. apríl, en þar verða skýrsluhöfundar með kynningu á henni fyrir kjörna fulltrúa í bæjarstjórn, fræðslunefnd og stjórnendur grunn- og tónlistarskóla.
Kynningin fer fram í fundarsal bæjarstjórnar kl. 15:30.

Bæjarráð Fljótsdalshéraðs - 293. fundur - 27.04.2015

Síðastliðinn föstudag kynntu starfsmenn Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri niðurstöður sínar úr skýrslu um úttekt á grunn- og tónlistarskólum á Fljótsdalshéraði, fyrir bæjarfulltrúum, fulltrúum í fræðslunefnd og skólastjórnendum.

Bæjarráð samþykkir að vísa skýrslunni til stjórnenda viðkomandi skóla og fræðslunefndar og þeim verði gefinn kostur á að koma á framfæri spurningum til skýrsluhöfunda, enda berist þær fyrir 6. maí n.k. Fræðslufulltrúa falið að taka við spurningunum og koma þeim til skýrsluhöfunda. Að þeim svörum fengnum, er skýrslunni, ásamt svörum við spurningum, vísað til fræðslunefndar til umfjöllunar.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 216. fundur - 06.05.2015

Bæjarráð samþykkti að vísa skýrslunni til stjórnenda viðkomandi skóla og fræðslunefndar og gefa þeim kost á að koma á framfæri spurningum til skýrsluhöfunda, enda hafi þær borist fyrir 6. maí 2015.

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarstjórn tekur undir með bæjarráði og felur fræðslufulltrúa að taka við spurningunum og koma þeim til skýrsluhöfunda. Að þeim svörum fengnum, er skýrslunni, ásamt svörum við spurningum, vísað til fræðslunefndar til umfjöllunar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Fræðslunefnd Fljótsdalshéraðs - 219. fundur - 23.06.2015

Fræðslunefnd felur fræðslufulltrúa að senda foreldrum og starfsfólki í grunn- og tónlistarskólum skýrsluna með niðurstöðum á úttekt á skólastarfi á Fljótsdalshéraði til að tryggja að skólasamfélagið þekki skýrsluna.

Fræðslunefnd mun í samræmi við tillögur í skýrslunni endurskoða starfslýsingu fræðslufulltrúa og fer þess á leit að bæjarstjóri og formaður fræðslunefndar beri ábyrgð á að sú vinna fari fram og tillaga verði kynnt í nefndinni í haust.

Fræðslunefnd óskar eftir að umsjónarmaður tölvumála vinni úttekt á tölvubúnaði og nettengingum í skólastofnunum sveitarfélagsins með tillögum um úrbætur þar sem þörf er á.

Frekari umfjöllun um skýrsluna fer fram á fundum fræðslunefndar að loknu sumarleyfi.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 220. fundur - 01.07.2015

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Að tillögu fræðslunefndar felur bæjarstjórn fræðslufulltrúa að senda foreldrum og starfsfólki í grunn- og tónlistarskólum skýrsluna með niðurstöðum á úttekt á skólastarfi á Fljótsdalshéraði til að tryggja að skólasamfélagið þekki skýrsluna.

Fræðslunefnd mun í samræmi við tillögur í skýrslunni endurskoða starfslýsingu fræðslufulltrúa og fer þess á leit að bæjarstjóri og formaður fræðslunefndar beri ábyrgð á að sú vinna fari fram og tillaga verði kynnt í nefndinni í haust.
Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.


Að tillögu fræðslunefndar óskar bæjarstjórn eftir að umsjónarmaður tölvumála vinni úttekt á tölvubúnaði og nettengingum í skólastofnunum sveitarfélagsins með tillögum um úrbætur þar sem þörf er á.

Bæjarstjórn mælist til að frekari umfjöllun um skýrsluna fari fram á fundum fræðslunefndar að loknu sumarleyfi.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Fræðslunefnd Fljótsdalshéraðs - 226. fundur - 24.11.2015

Fræðslufulltrúa falið að taka saman umbeðin gögn frá tónlistarskólastjórum og senda á nefndarmenn með fyrirvara fyrir næsta fund nefndarinnar.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

Fræðslunefnd Fljótsdalshéraðs - 227. fundur - 08.12.2015

Farið yfir fyrirliggjandi gögn frá tónlistarskólunum.

Mál í vinnslu.

Fræðslunefnd Fljótsdalshéraðs - 232. fundur - 12.04.2016

Tónlistarkennararnir Charles Ross, Hafþór Snjólfur Helgason, Margrét Lára Þórarinsdóttir, Suncana Slamnig og Torvald Gjerde mættu á fundinn undir þessum lið auk áheyrnarfulltrúa tónlistarskóla Berglindar Halldórsdóttur og Drífu Sigurðardóttur.

Formaður bauð fundarmenn og gesti velkomna og kynnti stuttlega megintillögur í þeim hluta úttektarskýrslunnar sem snúa að málefnum tónlistarskólanna.

Fræðslunefnd þakkar tónlistarkennurunum komuna og þær hugmyndir og ábendingar sem þeir hafa lagt inn í umræðuna.

Fræðslunefnd Fljótsdalshéraðs - 233. fundur - 26.04.2016

Fræðslunefnd leggur til sameiningu Tónlistarskólans í Fellabæ og Tónlistarskólans á Egilsstöðum undir nafninu Tónlistarskóli Fljótsdalshéraðs. Skólinn skal hafa tvær starfsstöðvar í Fellaskóla og Egilsstaðaskóla. Skólinn skal starfa frá og með næsta skólaári, haustið 2016.

Fellt með 3 atkvæðum (HEG, SS, GI), 2 samþykkja (DÞS, AÁ).

Fulltrúar L-lista (Aðalsteinn Ásmundsson)og D-lista (Davíð Þór Sigurðarson) samþykkja fyrirlagða tillögu um sameiningu Tónlistarskólans í Fellabæ og Tónlistarskólans á Egilsstöðum með þeim rökum sem komið hafa fram í umræðu nefndarinnar síðustu misseri. Telja fulltrúar listanna að fleiri tækifæri felist í sameiningu en ógnanir.
Einnig er það sýnt og rökstutt að bæði faglegur, félagslegur og fjárhagslegur ávinningur getur hlotist af þessari sameiningu. Til stuðning þessu er vísað til frekari gagna í greinargerð sem fylgir þessari bókun.

Fulltrúar Á-lista (Hrund Erla Guðmundsdóttir og Soffía Sigurjónsdóttir)og fulltrúi B-lista (Gunnhildur Ingvarsdóttir) gerðu grein fyrir atkvæði sínu með eftirfarandi bókun:

Í niðurstöðum skýrslunnar, Skólastarf á Fljótsdalshéraði, úttekt á grunn- og tónlistarskólum er lagt til að tónlistarskólarnir á Egilsstöðum og Fellabæ verði sameinaðir. Í skýrslunni er gert er ráð fyrir hagræðingu vegna sameiningar þar sem einungis verði einn skólastjóri við nýja stofnun. Sú fullyrðing stenst ekki, stjórnunarhlutfall sameinaðs skóla yrði um 170%, sem er mjög svipað því sem er í dag og að auki myndu laun stjórnenda hækka vegna stærðar skóla. Skólastjóri ber ábyrgð á rekstri skólans sem og faglegu starfi og til að geta staðið undir þeirri ábyrgð fylgir stöðunni vald. Hann gæti ákveðið að eðlilegast væri að hafa, aðstoðarskólastjóra á Egilsstöðum og deildarstjóra í Fellabæ. Ef sú yrði raunin myndi það kalla á aukinn kostnað þegar tillit er tekið til kennsluþáttarins.

Markmiðið með sameiningunni samkvæmt skýrslunni er einnig að einfalda stjórnun. Okkar mat er að stjórnun minni eininga geti verið bæði liprari og skilvirkari. Samstarfið við grunnskólanna verði markvissara með skólastjóra í báðum skólum. Í skýrslunni er faglegur og félagslegur ávinningur m.a. sagður vera fækkun boðleiða, aukið samstarf, sameiginlegt skóladagatal og sameiginleg skólanámsskrá. Boðleiðirnar fækka vissulega gagnvart stjórnsýslunni en á kostnað skólastarfsins að okkar mati. Boðleiðirnar milli skólastjóra, kennara, nemanda og foreldra eru þær boðleiðir sem við metum meira. Í skýrslunni kemur einnig fram að foreldrar séu ánægðir með tónlistaskólastarfið eins og það er í dag.

Í breytingum eins og þeim sem lagðar eru til í skýrslunni eru óvissuþættir. Einn af þeim eru hvort um eina eða tvær starfsstöðvar/útibú sé að ræða þegar skólarnir eru sitt hvoru megin við fljótið. Okkar mat er að starfstöðvarnar hljóti að vera tvær, sem kallar á aksturskostnað. Fyrirliggjandi útreikningarnir eru á stjórnunarkostnaði, aksturskostnaður og áhrif vegna kennsluþáttar stjórnenda er ekki inn í þeim tölum sem settar hafa verið fram. Útreikningar sem tiltaka lægra stjórnunarhlutfall en það sem er kjarasamningsbundið eru villandi. Heildarkostnaðaráhrif sameiningar hafa ekki verið sett fram í tölum.

Í umræðum á fræðslunefndarfundum, bæði með skólastjórum og tónlistarskólakennurum, var farið yfir kosti og galla sameiningar. Fleiri raddir voru á því að ekki væri ávinningur af því að sameina skólana. Umræðurnar á þessum fundum gáfu ekki tilefni til að fara í breytingu á skipulagi skólanna.

Upp úr stendur eftir þessa vinnu að við eigum að sýna því gríðarlega góða starfi sem unnið er í tónlistarskólunum hér á Fljótsdalshéraði virðingu. Reynslan af sameiningu tónlistarskóla hér á Fljótsdalshéraði hafa ekki gefið góða raun samanber sameininguna á tónlistarskólum á Egilsstöðum og Hallormsstað. Ekki er sýnt fram á með óyggjandi hætti að fjárhagslegur ávinningur verði við sameiningu og engin rök fyrir faglegum né félagslegum ávinningi.

Okkar niðurstaða er eins og einn viðmælanda okkar í umræðunni orðaði það "don?t, break up a winning team".

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs - 237. fundur - 04.05.2016

Eftirfarandi tillaga lögð fram:
Bæjarstjórn leggur til sameiningu Tónlistarskólans í Fellabæ og Tónlistarskólans á Egilsstöðum undir nafninu Tónlistarskóli Fljótsdalshéraðs. Skólinn skal hafa tvær starfsstöðvar í Fellaskóla og Egilsstaðaskóla. Skólinn skal starfa frá og með næsta skólaári, haustið 2016.

4 greiddu tillögunni atkvæði (AA, ÁK, AÁ, og KL.) en 5 voru á móti (SBS, GI, PS, EK, og GJ) Tillagan því felld.

Bókun B-lista við lið 7.5

Bæjarfulltrúar B-lista vilja lýsa yfir vonbrigðum sínum með skýrsluna Skólastarf á Fljótsdalshéraði sem skilað var til sveitarfélagsins í aprílmánuði 2015. Fulltrúar B-lista stóðu ásamt öðrum bæjarfulltrúum að því að kalla eftir skýrslunni, en það er mat okkar að hún sé alls ekki nægjanlegur grunnur undir ákvarðanatöku, þó að e.t.v. megi líta svo á að hún geti verið upphaf umræðu um einstök atriði sem fram koma í henni.

Á grunni skýrslunnar er nú lagt til að sameina Tónlistarskólana í Fellabæ og Tónlistarskólann á Egilsstöðum. Auk skýrslunnar liggur fyrir svonefnd greinargerð tveggja fulltrúa í fræðslunefnd þar sem dregin eru saman frekari rök fyrir tillögunni. Það er okkar mat að því fari fjarri að það sem þar kemur fram geti talist óyggjandi og teljum við að þeir þættir sem þar eru nefndir, og málið í heild, þarfnist mun meiri umræðu og undirbúnings ef vel á að fara. Að okkar mati er alls ekki skýrt að breytingin sem lögð er til skili ávinningi, hvorki fjárhagslegum eða faglegum. Þess vegna greiðum við atkvæði gegn tillögunni.

Þessu til viðbótar má tilgreina að fyrirvari á slíkri grundvallarbreytingu á rekstri skólanna er alltof skammur, mörgum spurningum er ósvarað um starfsmannamál og hvaða kostnaði sveitarfélagið getur staðið frammi fyrir vegna biðlauna og annarra þátta sem tengjast breytingunni sem lögð er til.

Fulltrúar B-lista lýsa því yfir að hér eftir sem hingað til erum við reiðubúin að taka þátt í málefnalegri umræðu um stöðu og framtíð skólastarfs á Fljótsdalshéraði. Skólarnir eru mikilvægustu stofnanir samfélagsins og verðskulda að umræða og ákvarðanataka um stefnu og framtíð þeirra fari fram með yfirveguðum hætti og af virðingu fyrir þeirri starfsemi sem þar fer fram.


Fulltrúar Á-lista í bæjarstjórn Fljótsdalshérað hafna tillögu um sameiningu tónlistarskólans á Egilsstöðum og tónlistarskólans í Fellabæ með eftirfarandi rökum. Við teljum ólíklegt að fjárhagsleg hagræðing gangi eftir. Faglegur ávinningur er óljós, ef nokkur. Almenn ánægja er með starf tónlistarskólana í samfélaginu eins staðfest er í úttektarskýrslunni. Vangaveltur um að ætla nýjum tónlistarskóla skerta stjórnum miðað við kjarasamninga tónlistarskólastjóra eru að okkar mati ekki boðlegar í ákvarðanatöku á sveitarstjórnarstigi.
Á-listinn telur af framansögðu ekki hægt að réttlæta þá tillögu sem fram er borin.


Bæjarfulltrúar L- og D-lista í bæjarstjórn telja að með sameiningu tónlistarskólanna á Egilsstöðum og í Fellabæ skapast mikil tækifæri bæði fagleg og félagsleg og verði jákvæð bæði fyrir starfsmenn og nemendur líkt og fram kemur í úttektarskýrslu Skólastarf á Fljótsdalshéraði sem unnin var af Miðstöð skólaþróunar Háskólans á Akureyri. Faglegur og félagslegur ávinningur mun m.a. felast í að nemendur hafi kost á að leika og spila með stærri hóp samnemenda og koma að fjölbreyttari verkefnum innan og utan skólans. Önnur jákvæð áhrif felast í að sérsvið hvers og eins nemenda fær meira vægi, þar sem stærri hópur kennara stendur að baki starfinu.

Í dag eru 10 starfsmenn í þessum tveimur skólum, þar af tveir skólastjórar. Fimm af kennurum skólanna kenna í báðum skólunum. Fjárhagslegur ávinningur sameiningar felst m.a. í stjórnun á sameinuðum tónlistarskóla. Fjárhagslegur ávinningur er á bilinu 1,2 ? 6,3 milljónir kr/ári, allt eftir hversu mikið stjórnunarhlutfall verður nýtt í sameinuðum tónlistaskóla. En það er lagt fram í starfsáætlun skólans ár hvert og samþykkt af bæjarstjórn, samanber álit samstarfsnefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum, dagsett 14.06.2013. Þetta er fyrir utan alla hagræðingu sem felst í samlegðaráhrifum sameiningar s.s. starfs- og fundatímar kennara, skólanámskrá, skóladagatal, notkun tækja og hljóðfæra og sameiginleg innkaup.

Sameinaði skólinn yrði með tvær starfstöðvar og við skipulagningu starfsins skal hafa í huga grein 5.3.2. úr kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félags íslenskra hljómlistarmanna og Félag tónlistarskólakennara þar sem fram kemur að "sé vinnustöð og heimastöð innan sama þéttbýlissvæðis ber starfsmanni að sækja vinnu á vinnustöð á eigin vegum og í tíma sínum."
Með sameiningu tónlistarskólanna munu boðleiðum fækka auk þess sem tónlistarnám í sveitarfélaginu verður allt skilvirkara.

Við teljum staðhæfingu fulltrúa Á- og B-lista í fræðslunefnd "að ekki sé sýnt fram á með óyggjandi hætti að fjárhagslegur ávinningur verði við sameiningu og engin rök fyrir faglegum né félagslegum ávinningi" ekki rétta. Með þessu sjónamiði er ekki verið að horfa í þau tækifæri sem skapast með sameiningu tónlistarskólanna og litið framhjá þeim staðreyndum sem liggja fyrir í málinu.