Bæjarráð Fljótsdalshéraðs

234. fundur 11. júní 2013 kl. 16:00 í fundarsal bæjarstjórnar
Nefndarmenn
  • Gunnar Jónsson formaður
  • Stefán Bogi Sveinsson varaformaður
  • Sigrún Blöndal aðalmaður
  • Björn Ingimarsson bæjarstjóri
  • Stefán Snædal Bragason skrifstofu- og starfsmannastjóri
  • Karl Sigfús Lauritzson áheyrnarfulltrúi
Fundargerð ritaði: Stefán Bragason skrifstofustjóri
Kl. 15:00 var haldinn fundur með fulltrúum Alcoa. Bæjarráð þakkar fyrir góðan fund og telur ástæðu til að halda slíka fundi reglulega.

1.Fjármál 2013

Málsnúmer 201301002

Guðlaugur Sæbjörnsson fjármálastjóri sat fundinn undir þessum dagskrárlið og fór yfir nokkra liði tengda fjármálum yfirstandiandi árs.

Kynning á námsferð til Skotlands nk.haust. Bæjarstjóri kynnti bréf frá Sambandi ísl. sveitarfélaga um þessa námsferð. Ákveðið að skoða málið betur og taka það fyrir á næsta fundi.

Kynnt boð um að kaupa eintak af mastersritgerð sem fjallar um ýmis starfsmannamál sveitarfélaga. Höfundur er Halldór Halldórsson. Bæjarstjóra falið að afgreiða málið.

Lagt fram lauslegt yfirlit yfir ástand tölvubúnaðar og sambanda í stofnunum sveitarfélagsins, sem umsjónarmaður tölvumála og skrifstofustjóri tóku saman fyrir bæjarráð. Samþykkt að óska eftir tillögum frá umsjónarmanni tölvumála varðandi endurnýjun búnaðar sem lagðar verða fyrir næsta fund bæjarráðs.

Björn Ingimarsson bæjarstjóri gerði grein fyrir fundi með fulltrúum ÍLS varðandi fjármögnun byggingar hjúkrunarheimilis á Egilsstöðum.

2.Fjárhagsáætlun 2014

Málsnúmer 201302034

Nú liggur fyrir samþykktur rammi frá bæjarstjórn vegna fjárhagsáætlunar 2014. Fjármálastjóri hefur þegar sent hann út til formanna og starfsmanna nefnda til undirbúnings gerðar fjárhagsáætlunar á haustdögum.

Samþykkt samhljóða með handauppréttingu að á næsta fundi bæjarráðs verði teknar til umræðu frá nefndum tillögur varðandi forgangsröðun framkvæmda og stærri viðhaldsverkefna.

3.Fundur byggingarnefndar hjúkrunarheimilis 29.maí 2013

Málsnúmer 201305199

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

4.Fundur byggingarnefndar hjúkrunarheimilis 2.júní 2013

Málsnúmer 201306003

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

5.Fundargerð stjórnar SSA nr.7 2012-2013

Málsnúmer 201305205

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

6.Fundargerð 806.fundar Sambands íslenskra sveitarfélaga

Málsnúmer 201306026

Fundargerðin lögð fram til kynningar.

7.Atvinnuþróunarsjóður Austurlands 2013

Málsnúmer 201303092

Bæjarráð vísar til þess að á aðalfundi Atvinnuþróunarsjóðs sem haldinn var 10. júní sl. var samþykkt að leggja sjóðinn niður í núverandi mynd og ganga til samninga milli sveitarfélaga á Austurlandi, SSA og Austurbrúar um nýjan sjóð sem taki við hlutverki hans. Fljótsdalshérað lýsir yfir stuðningi við stofnun nýs sjóðs innan Austurbrúar og mun koma sínum sjónarmiðum á framfæri við þær samningaviðræður.

Fundargerðin lögð fram til kynningar að öðru leyti.

8.Fundargerðir SO 2013

Málsnúmer 201301244

Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.

9.Stefnumörkun stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga

Málsnúmer 201305196

Lagður fram tölvupóstur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 28.maí 2013, með drögum að stefnumörkun Samtaka orkusveitarfélaga.

Bæjarráð gerir ekki athugasemdir við framlögð drög að stefnumörkun fyrir Samtök orkusveitarfélaga.

10.Framtíðarþing um farsæla öldrun

Málsnúmer 201305176

Lagður fram til kynningar tölvupóstur frá Gyðu Hjartardóttur, félagsmálafulltrúa hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 27. maí 2013, með niðurstöðum og tillögum að aðgerðum frá ráðstefnunni "Framtíðarþing um farsæla öldrun" sem haldin var 7. mars s.l.

11.Hækkun hlutafjár í Gróðrarstöðinni Barra ehf.

Málsnúmer 201305206

Lagt fram bréf frá Gróðrarstöðinni Barra ehf. dagsett 28. maí, þar sem kynnt er heimild félagsins til að hækka hlutafé sitt um 10 milljónir, eða upp í 30 milljónir alls.
Með bréfinu er núverandi hluthöfum boðin að kaupa viðbótarhlutafé í félaginu í hlutfalli við eign í því á genginu einum.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að kanna afstöðu stjórnar atvinnumálasjóðs til erindisins og leggja málið að nýju fyrir á næsta fundi bæjarráðs.

12.Húsnæði fyrir grasrótar- og félagasamtök

Málsnúmer 201305191

Lagt fram erindi frá Ástu Hafberg, fyrir hönd Öldu - félags um sjálfbærni og lýðræði, þar sem sveitarfélög og önnur stjórnvöld eru hvött til að útvega grasrótarfélögum húsnæði og aðstöðu.

Í ljósi erindisins vekur bæjarráð athygli á því að á vegum sveitarfélagsins er rekið húsnæði sem m.a. er ætlað grasrótar- og félagasamtökum til afnota. Um er að ræða nokkur félagsheimili í dreifbýli og þéttbýli, aðstöðu fyrir ungt fólk í þéttbýlinu, aðstöðu fyrir fatlaða einstaklinga og aðstöðu fyrir aldraða, auk fjögurra íþróttasala og Sláturhússins menningarmiðstöðvar.

13.Uppbygging sölumiðstöðvar Húss handanna / Anddyri Austurlands

Málsnúmer 201301023

Lagt fram erindi frá Stefaníu G. Kristinsdóttur, fyrir hönd Húss Handanna, með ósk um fund með fulltrúum sveitarfélagsins.

Bæjarstjóri gerði grein fyrir fundum með fulltrúum Húss handanna.
Bæjarráð ítrekar fyrri bókun atvinnumálasjóðs og leggur til að verkefnið verði styrkt af atvinnumálasjóði með framlagi upp á kr. 1.5 milljón, að því gefnu að áætlanir forsvarsmanna fyrirtækisins um söfnun hlutafjár gangi eftir.
Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

14.Nýsköpunarráðstefna og nýsköpunarverðlaun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu

Málsnúmer 201306007

Lagt fram erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga varðandi fyrirhugaða nýsköpunarráðstefnu og afhendingu nýsköpunarverðlauna í opinberri þjónustu og stjórnsýslu, í janúar 2014.

Bæjarráð samþykkir samhljóða með handauppréttingu að kallar eftir tillögum frá starfsmönnum og kjörnum fulltrúum sveitarfélagsins. Hugmyndum verði komið á framfæri við skrifstofustjóra Fljótsdalshéraðs.

15.Þjóðbraut norðan Vatnajökuls

Málsnúmer 201302030

Lögð fram umsögn sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar ásamt erindi frá Sigurði Gunnarssyni fyrir hönd undirbúningshóps um hálendisveg.

Í umsögn Þingeyjarsveitar kemur fram að sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við að vegalagning verði könnuð. Jafnframt að haft verið samráð um skipulagsmál, ef um raunhæfa möguleika verður að ræða í vegalagningu.

Einnig lagður fram tölvupóstur frá Vilhjálmi Jónssyni bæjarstjóra Seyðisfjarðarkaupstaðar, þar sem viðraðar eru hugmyndir Sigurðar Gunnarssonar um að sveitarfélög á Austurlandi yrðu beinir aðilar að félagi sem stofnað yrði til undirbúnings lagningar hálendisvegarins.

Bæjarráð samþykkt að beina því til skipulags- og mannvirkjanefndar að taka til skoðunar að gera breytingar á núgildandi aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs í samræmi við hugmyndir um lagningu hálendisvegar norðan Vatnajökuls. Jafnframt verði leitað til annarra sveitarfélaga sem vegurinn kæmi til með að liggja um, um sambærilegar breytingar á aðalskipulagi þeirra.

16.Upplýsingamiðstöð Austurlands

Málsnúmer 201304092

Bæjarstjóri gerði grein fyrir fundi með fulltrúa Íslandsbanka varðandi framtíðarnotkun húsnæðisins að Miðvangi 1 - 3.
Bæjarráð Fljótsdalshéraðs samþykkir að fela bæjarstjóra að kanna hvort grundvöllur sé fyrir því að semja um staðsetningu Upplýsingamiðstöðar Austurlands í núverandi húsnæði til lengri tíma (5 til 10 ár) að höfðu samráði við framkvæmdastjóra Austurbrúar.

17.Stórurð: Hönnun og skipulag víðernis

Málsnúmer 201304103

Lögð fram drög að forvalsauglýsingu og keppnislýsingu vegna samkeppni um hönnun og skipulag á aðkomuleiðum og mögulegum mannvirkjum tengdum svæðinu.
Jafnframt lá fyrir beiðni um að bæjarráð tilnefni einn fulltrúa í dómnefnd, en auk hans skipar Borgarfjarðarhreppur einn fulltrúa og arkitektafélagið einn.

Málinu vísað til skipulags- og mannvirkjanefndar til umsagnar og verður í framhaldinu afgreitt í bæjarstjórn.

18.Fundargerð samráðsnefndar um skíðasvæðið í Stafdal frá 3.6.2013

Málsnúmer 201306012

Lögð fram fundargerð samráðsnefndar um skíðasvæðið í Stafdal frá 3.6.2013.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að vinna áfram að málefnum skíðasvæðisins ásamt atvinnu- menningar og íþróttafulltrúa,í samráði við fulttrúa, Fjarðabyggðar, Seyðisfjarðar og skíðafélagsins.

19.Framtíðarfyrirkomulag skólastarfs á Hallormsstað

Málsnúmer 201305081

Lögð fram tillaga vinnuhóps sem skipaður var af Fljótsdalshéraði og Fljótsdalshreppi um fyrirkomulag skólastarfs á Hallormsstað á komandi vetri.

Bæjarráð þakkar tillögur hópsins, en telur ekki raunhæft að þær komi til framkvæmda á komandi hausti. Bæjarráð felur starfshópnum fyrir sitt leyti að starfa áfram að því verkefni sem honum var falið og að skila tillögum fyrir lok október til sveitarstjórna Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps þar sem miðað verði við að mögulegar breytingar á skólastarfi geti orðið frá og með skólaárinu 2014 - 2015. Samráð verði haft við starfsmenn og foreldra.

Bæjarráð leggur til að fræðslufulltrúa og skólastjóra verði falið að koma með tillögur til skólanefndar Hallormsstaðaskóla um skólastarf næsta skólaárs sem taki mið af fyrirsjáanlegri fækkun nemenda.

20.Iðavallasvæði,vatnsveita

Málsnúmer 201012043

Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu til stjórnar Hitaveitu Egilsstaða og Fella með ósk um að HEF veiti þá aðstoð sem óskað er eftir í því.

21.Áhrif Kárahnjúkavirkjunar á vatnsborð og grunnvatn á láglendi á Héraði

Málsnúmer 201210107

Lagt fram til kynningar svarbréf Orkustofnunar við bréfi frá Fljótsdalshéraði frá 30. maí s.l., varðandi það hvort leyfishafar hafi farið eftir skilmálum virkjunarleyfa, annars vegar vegna Kárahnjúkavirkjunar og hins vegar vegna Lagarfossvirkjunar.

Þar kemur fram að Orkustofnun hefur þegar leitað umsagnar Landsvirkjunar og Orkusölunnar á erindi Fljótsdalshéraðs og að reynt verði að hraða málsmeðferð eins og kostur er. Skilafrestur fyrirtækjanna á umsögnunum er til 21. júní nk.

22.Siðareglur

Málsnúmer 201305150

Lögð fram drög að siðareglum fyrir kjörna fulltrúa Fljótsdalshéraðs, en í drögum að endurskoðuðum samþykktum sveitarfélagsins er gert ráð fyrir að slíkar siðareglur séu til og samþykktar af bæjarstjórn.

Bæjarráð samþykkir samhljóða með handauppréttingu siðareglurnar fyrir sitt leyti og vísar þeim til afgreiðslu á næsta fundi bæjarstjórnar.

23.Samþykktir

Málsnúmer 201305149

Lögð fram drög að endurskoðuðum samþykktum fyrir stjórn og fundarsköp Fljótsdalshéraðs, ásamt þeim breytingartillögum sem fram komu við fyrri umræðu um samþykktirnar á síðasta fundi bæjarstjórnar.

Bæjarráð samþykkir samhljóða með handauppréttingu að vísa drögum að samþykktunum, með áorðnum breytingum til síðari umræðu í bæjarstjórn.

Fundi slitið.